Fótbolti

Balotelli, Zlatan og Carrick meiddir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Carrick í leik með Manchester United.
Michael Carrick í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Þeir Mario Balotelli, Zlatan Ibrahimovic og Michael Carrick eiga allir við meiðsli að stríða og missa því af næstu leikjum landsliða sinna.

Enska landsliðið mætir Sviss í undankeppni EM 2012 á laugardaginn en Michael Carrick getur ekki tekið þátt í leiknum þar sem hann meiddist í leik Manchester United gegn Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu um helgina.

Talið er að hann hafi fengið högg á mjöðmina og hefur hann snúið aftur til Manchester til að fá aðhlynningu hjá læknum United.

Þetta er áfall fyrir Carrick sem var nú valinn í landslið Englands í fyrsta sinn síðan á HM í sumar.

Balotelli á við hnémeiðsli að stríða og missir því af leik Ítala og Eistlands í undankeppninni. Hann meiddist í æfingaleik með U-18 landsliði Ítalíu á dögunum.

Balotelli gekkst fyrr á tímabilinu undir aðgerð á hné og hafa meiðsli tekið sig upp í sama hnénu. Missti hann af þó nokkrum leikjum Manchester City í vetur vegna þessa.

Zlatan Ibrahimovic hefur dregið sig úr sænska landsliðshópnum vegna meiðsla en Svíar mæta Moldóvu á föstudaginn kemur.

Ibrahimovic hefur verið að glíma við ökklameiðsli síðustu vikurnar og taldi Erik Hamren, landsliðsþjálfari Svía, að hann þyrfti frekar á hvíldinni að halda.

Þó eru vonir bundnar við að hann nái leiknum við Finna á þriðjudaginn næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×