Fótbolti

Frakkar töpuðu stigum í Hvíta-Rússlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Florent Malouda í leiknum í kvöld.
Florent Malouda í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Frakkland mátti sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM 2012 í kvöld.

Frakkar lentu undir þegar að Eric Abidal skoraði sjálfsmark á 20. mínútu. Þeir náðu þó að jafna metin aðeins tveimur mínútum aíðar og var þar Florent Malouda að verki eftir undirbúning Karim Benzema.

En frammistaða Frakka þótti valda vonbrigðum í kvöld og fóru þeir illa með nokkur góð færi sem þeir fengu í síðari hálfleik.

Frakkar eru í efsta sæti D-riðils með þrettán stig, fjórum meira en Hvíta-Rússland sem er í öðru sæti. Rúmenía komst upp í átta stig í kvöld með 3-0 sigri á Bosníu á heimavelli.

Ítalía vann 3-0 sigur á Eistlandi í C-riðli í kvöld en þeir Giuseppe Rossi, Antonio Cassano og Giampaolo Pazzini skoruðu mörk liðsins í kvöld.

Ítalir eru með sextán stig af átján mögulegum í C-riðli en Slóvenar koma næstir með ellefu stig. Þeir unnu 2-0 sigur á Færeyingum í kvöld, þrátt fyrir að hafa misst mann af velli með rautt spjald strax á 25. mínútu.

Valsmennirnir Jónas Tór Næs og Pól Justinussen voru í byrjunarliði Færeyja í kvöld og Christian Mouritsen kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik.

Í E-riðli unnu Svíar 4-1 sigur á Moldóvu og Finnar höfðu betur gegn San Marínó á útivelli, 1-0. Þá vann Króatía 2-1 sigur á Georgíu í F-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×