Fótbolti

Unnu Tékka en töpuðu fyrir Liechtenstein

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Liechtenstein leyfðu sér eðlilega að fagna sigrinum vel og innilega í kvöld.
Leikmenn Liechtenstein leyfðu sér eðlilega að fagna sigrinum vel og innilega í kvöld. Nordic Photos / AFP
Litháen mátti í kvöld sætta sig við 2-0 tap fyrir smáríkinu Liechtenstein í undankeppni EM 2012 í kvöld.

Þetta var fyrsti sigur liðsins í næstum fjögur ár, eða síðan að Liechtenstein vann 3-0 sigur á Íslandi í október 2007. Var það einn svartasti dagur í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Philippe Erne og Michele Polverino skoruðu mörk Liechtenstein í leiknum en þetta voru fyrstu stig liðsins í riðlinum.

Óhætt er að segja að Litháen hafi fengið að upplifa ýmislegt í þessari undankeppni þar sem að liðið gerði sér lítið fyrir og vann Tékkland, 1-0, á útivelli í byrjun september.

Síðan þá hefur liðið tapað þremur leikjum í röð, nú síðast fyrir einu allra lélegasta landsliði Evrópu.

Spánverjar eru efstir í I-riðli með fullt hús stiga en Tékkland í öðru sæti með níu. Skotland og Litháen eru með fjögur stig og Liechstenstein þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×