Fótbolti

Ólafur rauk af blaðamannafundi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Anton
Ólafur Jóhannsson vildi engu svara um hvort að hann væri rétti maðurinn til að sinna starfi landsliðsþjálfara áfram eftir 2-0 tap Íslands fyrir Dönum í kvöld.

Ólafur svaraði spurningum blaðamanns Vísis í þrjár mínútur áður en hann stóð upp og fór.

„Ég nenni ekki að tala lengur. Takk fyrir í dag," sagði Ólafur og stóð upp. Hann vildi ekki svara fleiri spurningum, ekki heldur frá dönskum blaðamönnum.

Hann var spurður hvort að hann teldi sig hafa þær lausnir sem þyrfti til fyrir íslenska landsliðið sem hefur aðeins unnið einn mótsleik undir hans stjórn á þremur og hálfu ári.

„Ja, nú segi ég eins og góður maður sagði - nú ertu farinn að tala um eitthvað annað en fótbolta og því get ég ekki svarað."

Ólafur sagði fyrr á fundinum að honum þætti ekkert benda til þess að Danir væru að fara að vinna leikinn frekar en íslenska liðið þegar staðan var enn markalaus.

„En við setjum ekki pressu á skotmanninn og hann hittir boltann. Mörk breyta leikjum og það gerði það svo sannarlega í þessum leik."

„Það er bara það sem gerist í fótbolta. Þetta er bara þannig. Það er ekki sett pressa á hann og þá fær hann frítt skot. Auðvitað á varnarmaðurinn að gera betur í því."

„Það er alltaf gott tækifæri að vinna Dani þegar við spilum hérna á Laugardalsvellinum. Það var ekkert betra núna en oft áður. En því miður gátum við ekki nýtt okkur það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×