Fótbolti

Ólafur Ingi: Grátlegt að ná ekki að skora á undan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Ingi Skúlason var svekktur að fá ekkert út úr leiknum þrátt fyrir ágætis spilamennsku.

„Fyrri hálfleikur var fínn í rauninni. Við fáum nokkur ágætis færi. Þegar við lítum tilbaka er grátlegt að hafa ekki náð að skora á undan og ná að halda fengnum hlut. Þeir skora svo klaufalegt mark í seinni hálfleik, við missum aðeins hausinn. Þeir verða betri eftir að þeir skora fyrra markið og byrja að rúlla boltanum ágætlega."

Ólafur Ingi kenndi mistökum í varnarlínu íslenska liðsins um fyrra mark Dana sem breytti leiknum.

„Fyrra markið var kannski ekki gæði hjá þeim heldur mistök hjá okkur, lélegur varnarleikur. Seinna markið er ágætlega spilað hjá þeim og kannski gæðaskot niðri í hornið. Við vissum að þetta yrði erfitt og ég hélt við myndum ná einu eða þremur stigum í leiknum en því miður ekki."

Íslenska liðið átti fína kafla í leiknum en gekk illa að skapa sér færi þegar komið var á síðasta þriðjung vallarins.

„Þessi síðasta sending gekk ekki alveg í dag og hefur ekki gengið í undanförnum leikjum. Völlurinn var frekar slakur og hefur kannski eitthvað að segja, auðvitað hjá báðum liðum."

Ólafur Ingi varð fyrir hnjaski í fyrri hálfleik og þurfti að fara af velli í skamman tíma.

„Ég veit það ekki. Það gæti verið smá liðþófi sem hefur klemmst. Það verður bara að koma í ljós. Ég hugsa að að ég fari í myndatöku á mánudag eða þriðjudag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×