Fótbolti

Bendtner: Þetta var góð skipting

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Nicklas Bendtner, leikmaður danska landsliðsins, hrósaði Morten Olsen landsliðsþjálfara fyrir skiptinguna sem hann gerði í hálfleik gegn Íslandi í gær.

Staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik og ákvað Olsen að taka Michael Krohn-Dehli og setja Lasse Schöne inn í hans stað.

Það borgaði sig því aðeins stundarfjórðungi síðar kom Schöne Dönum í 1-0 forystu og unnu þeir að lokum 2-0 sigur.

„Þetta var vel séð af Morten,“ sagði Bendtner við danska fjölmiðla eftir leik. „Lasse skoraði frábært mark af löngu færi og svo skoraði Christian Eriksin sitt fyrsta mark fyrir Danmörku. Það var líka frábært.“

Bendtner vildi einnig meina að hann hefði sjálfur átt að skora í gær, sérstaklega í fyrri hálfleik er Stefán Logi Magnússon varði skot hans. „Það kom mér á óvart að Rommedahl náði að spila mig frían eins og hann gerði og ég held að það hafi líka komið honum á óvart.“

„En jú, ég hefði alla vega átt að skora eitt mark,“ sagði Bendtner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×