Fótbolti

Olsen: Arsenal hefði ekki spilað vel á Laugardalsvelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Morten Olsen var enn að kvarta undan Laugardalsvellinum í gær, jafnvel eftir að hans menn unnu þar 2-0 sigur á íslenska landsliðinu.

„Við erum ekki ánægðir með hvernig fótbolta við spiluðum en við verðum að sætta okkur við að völlurinn var ekki eins og á Parken,“ sagði Olsen við blaðamenn eftir leik í gær.

„Arsenal hefði ekki spilað vel á þessum fótboltavelli. Okkur tókst þó að skapa okkur 6-7 færi og við skoruðum tvö mörk. Þannig að það var ágætt.“

„Þetta var þannig leikur þar sem við þurftum að sýna stöðugleika til að vinna og það gerðum við í dag.“

Hann hrósaði miðvarðapari Dana, þeim Bo Svensson og Simon Kjær, mikið eftir leikinn.

„Miðverðirnir voru framúrskarandi. Bo Svensson var rólegur og alltaf á réttum stað. Hann spilaði boltanum vel frá sér og Simon Kjær stóð sig heilt yfir mjög vel.“

„En þetta var erfiður leikur eins og við mátti búast. Leikmenn þurftu að hafa fyrir hlutunum og þetta snerist um að vera skilvirkir inn á vellinum. Þessi þrjú stig þýða að við eigum enn möguleika í keppninni og það er undir okkur sjálfum komið að að komast í úrslitakeppni EM.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×