Íslenski boltinn

Valur í úrslitaleikinn eftir sigur í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson tryggði Val sæti í úrslitaleiknum.
Rúnar Már Sigurjónsson tryggði Val sæti í úrslitaleiknum. Mynd/Daníel
Valsmenn tryggðu sér í dag sæti í úrslitaleik Lengjubikars karla eftir 2-1 sigur á FH í framlengdum leik í undanúrslitum.

FH-ingar komust yfir með marki Ólafs Páls Snorrasonar á 31. mínútu en Haukur Páll Sigurðsson jafnaði metin fyrir Val aðeins þremur mínútum síðar.

Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik þó svo að FH-ingar hefðu bæði fengið víti og galopið skot fyrir opnu marki.

Haraldur Björnsson varði víti Matthíasar Vilhjálmssonar á 48. mínútu og það var Ólafur Páll sem brenndi af dauðafærinu skömmu fyrir leikslok, á 88. mínútu.

Þrátt fyrir það var síðari hálfleikur afar dapur en það lifnaði aðeins yfir leiknum í framlengingunni. Rúnar Páll Sigurjónsson náði að skora í upphafi síðari hálfleiks hennar þegar boltinn datt fyrir hann eftir klafs í teignum.

FH-ingar fengu þó sín færi til að jafna metin. Atli Viðar Björnsson fékk dauðafæri en Haraldur varði frá honum og þá var Gunnar Már Guðmundsson stutt frá því að skalla boltann í markið eftir skógarferð Haraldar úr marki Valsmanna. Matthías Vilhjálmsson fékk svo fínt skallafæri eftir horn en enn var Haraldur réttur maður á réttum stað.

2-1 sigur því staðreynd og mætir Valur liði Fylkis í úrslitaleiknum. Hann fer fram í Kórnum á mánudagskvöldið.

Leiknum var lýst hér á Vísi eins og sjá má hér fyrir neðan.

Valur - FH 2-1

0-1 Ólafur Páll Snorrason (31.)

1-1 Haukur Páll Sigurðsson (34.)

2-1 Rúnar Már Sigurjónsson (108.)

120. mínúta: Matthías með skalla að marki af stuttu færi eftir horn en Haraldur, maður þessa leiks, varði vel frá honum. Þetta reyndist síðasta færi leiksins.

116. mínúta: Ólafur Páll með fyrirgjöf frá hægri og Haraldur fór út í skógarferð. Gunnar Már varð fyrr í boltann en skallaði hárfínt fram hjá markinu.

109. mínúta: Atli Viðar í dauðafæri fyrir FH en Haraldur náði að verja í horn. FH-ingar ótrúlega nálægt því að jafna strax metin.

108. mínúta - mark: Valsmenn komnir yfir. Klafs í teignum og boltinn datt fyrir Rúnar Má sem afgreiddi knöttinn laglega í netið.

105. mínúta: Fyrri hálfleik lokið. Byrjaði ágætlega og nokkur hiti í mönnum en svo kom sama ládeyðan í leikinn síðustu mínúturnar. Þessi leikur ræðst í vítaspyrnukeppni, nema eitthvað mikið gerist í seinni hálfleik framlengingarinnar.

100. mínúta: Rúnar Már Sigurjónsson, Val, kom inn á fyrir Christian Mouritsen.

99. mínúta: FH fékk aukaspyrnu á hættulegum stað eftir að Halldór Kristinn braut á Gunnari Má. Viktor Örn tók spyrnuna en boltinn fór yfir markið.

96. mínúta - gult spjald: Hannes fær réttilega gult spjald fyrir að grýta Jónasi Næs í grasið í pirringskasti.

94. mínúta - gult spjald: Guðmundur Steinn fær gult fyrir að keyra inn í Pétur Viðarsson af full mikilli hörku.

93. mínúta - skipting: Gunnar Már Guðmundsson kom inn á fyrir Björn Daníel.

91. mínúta: Framlengingin hafin.

90. mínúta: Venjulegum leiktíma lokið og leikurinn því framlengdur. Vonandi verður meira líf í henni en í síðari hálfleiknum.

88. mínúta: Ja, hérna. Þetta kæmist á 101greatgoals.com. Guðmundur Sævarsson með sendingu eftir endalínunni beint fyrir fætur Ólafs Páls sem skýtur yfir af tveggja metra færi. Ótrúlegt.

87. mínúta: Ólafur Páll með fínt skot en yfir mark Valsmanna. Styttist í framlenginguna.

78. mínúta: Guðmundur Sævarsson kemst í ágætt skotfæri en skýtur fram hjá. Óttalegt hálffæri en það hefur ekki mikið betra verið í boði í seinni hálfleik.

71. mínúta - skipting: Hannes Þ. Sigurðsson inn hjá FH, Atli Guðnason út. Og það er ekkert annað að gerast í leiknum, bara svo að það komi fram.

67. mínúta - skipting: Hólmar Örn Rúnarsson út af hjá FH, Hákon Hallfreðsson inn.

61. mínúta - skipting: Arnar Sveinn Geirsson og Hörður Sveinsson fara af velli. Matthías Guðmundsson og Guðmundur Steinn Hafsteinsson inn hjá Val.

58. mínúta - skipting: Freyr Bjarnason fer út af og Ásgeir Gunnar Ásgeirsson tekur stöðu hans í vörn FH.

50. mínúta: Hætta við mark FH-inga. Pétur Viðarsson nær ekki að hreinsa boltann úr teignum en Valsmenn náðu ekki að færa sér það í nyt.

48. mínúta - víti varið: Há sending inn á teig Valsmanna og beint í hendi Halldórs Kristins. Matthías Vilhjálmsson tekur vítið en Haraldur Björnsson varði glæsilega frá honum.

47. mínúta - gult: Jónas Þór Næs fær gult fyrir brot á Birni Daníel.

46. mínúta - skipting: Síðari hálfleikur hafinn. Gunnleifur meiddist greinilega í fyrri hálfleik og þar sem að Gunnar Sigurðsson er einnig meiddur er hinn fimmtán ára Kristján Pétur Þórarinsson kominn í markið hjá FH.

45. mínúta: Fyrri hálfleik lokið. Fyrsti hálftíminn var fremur tíðindalítill en svo komu tvö mörk með stuttu millibili. FH-ingar byrjuðu betur en Valsmenn voru sterkari aðilinn eftir að þeir jöfnuðu metin.

36. mínúta: Björn Daníel á skalla að marki af stuttu færi en hárfínt yfir Valsmarkið.

34. mínúta - mark: Guðjón Pétur með langa sendingu inn á teig þar sem að Haukur Páll stóð einn og óvaldaður. Hann tók boltann glæsilega niður og skoraði með laglegu föstu skoti.

31. mínúta - mark: Atli Guðnason komst inn í teig og átti skot sem fór af varnarmanni og beint fyrir fætur Ólafs Páls Snorrasonar. Hann átti ekki í vandræðum með að skora fram hjá Haraldi markverði.

30. mínúta: Lítið búið að gerast síðustu mínúturnar og liðin skiptast á að vera með boltann án þess að gera nokkuð af viti með hann.

19. mínúta - gult spjald: Atli Viðar fellur í teignum en dómari leiksins, Gunnar Jarl Jónsson, metur að engin snerting hafi átt sér stað og spjaldar Atla fyrir leikaraskap. Umdeilt.

17. mínúta: Atli Guðnason átti skot að marki en Valsmenn náðu að hreinsa nánast á línu.

10. mínúta: Hólmar Örn með þrumufleyg rétt utan vítateigs en í samherja. FH enn meira með boltann.

6. mínúta: FH-ingar hafa verið meira með boltann en Valur var að komast í stórhættulega skyndisókn. Mouritsen átti sendingu inn fyrir vörn FH á Arnar Svein sem var kominn einn gegn Gunnleifi. En aftur slök afgreiðsla hjá Valsmönnum í góðri stöðu og Gunnleifur bægði hættunni frá.

1. mínúta: Leikurinn hafinn. Leikurinn fer ágætlega af stað Christian Mouritsen kemst fljótlega í ágætt færi fyrir Val. Skot hans er þó slakt og Gunnleifur ver það auðveldlega.

Byrjunarlið Vals (4-3-3): Haraldur Björnsson (m); Jónas Þór Næs, Halldór Kristinn Halldórsson, Pól Jóhannus Justinussen, Stefán Jóhann Eggertsson; Haukur Páll Sigurðsson (f), Guðjón Pétur Lýðsson, Christian Mouritsen, Arnar Sveinn Geirsson, Jón Vilhelm Ákason, Hörður Sveinsson.

Varamenn: Sigurbjörn Hreiðarsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Matthías Guðmundsson, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, Fitim Morina, Ásgeir Þór Magnússon (m), Andri Fannar Stefánsson.

Byrjunarlið FH (4-3-3): Gunnleifur Gunnleifsson (m); Guðmundur Sævarsson, Pétur Viðarsson, Freyr Bjarnason, Viktor Guðmundsson; Hólmar Örn Rúnarsson, Björn Daníel Sverrisson, Matthías Vilhjálmsson (f); Ólafur Páll Snorrason, Atli Guðnason, Atli Viðar Björnsson.

Varamenn: Gunnar Kristjánsson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Gunnar Már Guðmundsson, Kristján Pétur Þórarinsson (m), Hákon Atli Hallfreðsson, Emil Pálsson, Hannes Þ. Sigurðsson.

Dómarar: Gunnar Jarl Jónsson, Gunnar Sverrir Gunnarsson, Birkir Sigurðarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×