Innlent

Icesave 8. hluti: Hlekkir eða líflína?

Fólk hefur sjálfsagt tíu ástæður til að segja já eða nei við Icesave. Eða hundrað. Margvísleg rök á báða bóga hafa komið fram, alveg frá því að málið varð það vandræðamál sem það er.

Helsta grundvallarspurningin er þessi: eigum við að borga? Nei, segja margir enda standi ekki til þess lagaleg rök. Hinir sömu telja að út af fyrir sig þurfi ekki að ræða málið frekar en geta engu að síður talið upp fjölda röksemda til að styðja mál sitt.

Flestir þeirra sem segja já gera það ekki vegna þess að þeir meti lagaskylduna ljósa heldur telja þeir það rétt í pólitísku og efnahagslegu tilliti. Samþykkt auðveldi og flýti endurreisn samfélagsins. Andstæðingar samþykktar eru á hinn bóginn almennt þeirrar skoðunar að endurreisnin muni hafa sinn gang þótt Icesave verði fellt.

Eignir og gengi

Álitaefnin við samninginn eru að sönnu mörg og talsverð óvissa ríkir um ýmsar hliðar hans. Stóra spurningin er hversu hár reikningurinn verður á endanum. Til eru dæmi sem sýna að íslenska ríkið muni, þegar upp verður staðið, engan kostnað bera og önnur sem sýna himinháan kostnað.

Tvennt ræður: virði eigna þrotabús Landsbankans og gengisþróun. Um hvort tveggja ríkir óvissa. Eignirnar eru þekktar og fyrir liggur mat skilanefndar bankans um hvað á endanum muni skila sér. Ekki er þó allt fast í hendi. Gengið er svo eins og veðrið, það er hægt að spá en ógjörningur að segja til um hvað endanlega verður.

Hagdeild ASÍ segir að þróist allt til verri vegar, heimtur úr búinu versni umtalsvert og gengið falli um 25 prósent geti kostnaður ríkissjóðs orðið rúmlega 200 milljarðar. Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessor bendir á hinn bóginn á að raungengi krónunnar sé nú 20 til 30 prósentum fyrir neðan meðaltal síðustu áratuga.

Dómstólaleiðin

Verði Icesave-lögin felld í atkvæðagreiðslunni á laugardag blasir við að deilan fari fyrir dómstóla. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að hún telji að Íslendingum beri að ábyrgjast innstæður breskra og hollenskra sparifjáreigenda á Icesave-reikningunum að því ríflega tuttugu þúsund evra lágmarki sem Evróputilskipun um innstæðutryggingar kveður á um.

Fari málið fyrir dómstól EFTA og hann dæmir Íslendinga brotlega gagnvart EES-samningnum er ekki þar með sagt að okkur verði gert að greiða. Til að svo fari þurfa Bretar og Hollendingar að höfða sérstakt skaðabótamál fyrir íslenskum dómstólum, og auðvitað vinna það.Lánshæfi og pólitík

Vafamálin eru fleiri. Lánshæfismat ríkissjóðs, möguleikar íslenskra fyrirtækja á lánafyrirgreiðslu í útlöndum og vilji útlendinga til að fjárfesta á Íslandi eru allt veigamiklir þættir í áróðri já-sinna. Þeir telja allt þetta breytast til batnaðar með samþykkt.

Andstæðingarnir eru á öndverðum meiði. Þeir segja enga tryggingu fyrir þíðu í fjármálaheimum og þar með aukna fjárfestingu felast í samþykkt, þvert á móti þýði samningurinn auknar skuldir íslenska ríkisins sem kunni að virka neikvætt á umheiminn.

Pólitísk samskipti eru einnig undir. Íslendingar hljóta ævarandi skömm á alþjóðavettvangi ef ekki verður samið. Þeir standa ekki við orð sín og borga ekki skuldir sínar, segja fylgjendur. Á móti er sagt að ef samið verði hljóti Íslendingar ævarandi skömm á alþjóðavettvangi. Þeir verða taldar undirlægjur.Ítarefni

Af þessari stuttu samantekt má sjá að allt er þetta býsna snúið og sjálfsagt ekki einfalt mál fyrir alla að móta afstöðu til málsins.

Umræðan hefur líka verið hörð með afbrigðum og ekki alltaf hjálpleg. Í mörgum greinum og ræðum hefur fólk mátt moka sig í gegnum fúkyrðaflaum áður en það finnur sæmilega rökstudda skoðun eða gagnlegar upplýsingar. Á Vísi má finna fréttaskýringar Fréttablaðsins um málið, á alþingi.is eru helstu gögn þingsins um málið, fjármálaráðuneytið birtir efni á sínum vef og opinbera kynningarefnið sem Lagastofnun Háskóla Íslands vann er á kosning.is.

Stofnað var til Icesave í október 2006. Frá 2008 hefur málið verið vandamál, fyrst í bréfum og á fundum sem ekki þoldu dagsljósið, síðan sem ein harðasta milliríkjadeila sem Ísland hefur átt í. Á laugardaginn ræðst framhaldið.


Tengdar fréttir

Icesave 1. hluti: Svo einfalt í fyrstu

Icesave, sem byrjaði sem saklaus leið Landsbankans til að fjármagna sig, snerist við hrunið upp í andhverfu sína og er eitt flóknasta og erfiðasta viðfangsefni sem þjóðin hefur tekist á við.

Icesave 6.hluti: ESA telur skyldur Íslendinga skýrar

Líkur verða að teljast á að Ísland myndi tapa máli sem rekið yrði fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-deilunnar. Skiptar skoðanir eru um málið meðal lögmanna. Álit ESA er að með afstöðu sinni brjóti Ísland í bága við EES-samninginn. Fyrstu skrefin í málarekstri ESA hafa þegar verið tekin. Næstu skref verða tekin felli þjóðin nýjan Icesave-samning í atkvæðagreiðslunni næsta laugardag.

Icesave 3. hluti: Gengið og heimtur þrotabús valda óvissu

Meðal þess sem gæti ráðið úrslitum þegar gengið verður til atkvæða um Icesave-samninginn er mat kjósenda á því hversu mikill kostnaður fellur á ríkið. Nokkrir óvissuþættir flækja kostnaðarmatið.

Icesave 4. hluti: Í höftum virðist áhættan lítil

Kostnaður vegna Icesave getur aukist eða minnkað í samræmi við gengisþróun krónunnar. Yfirlýsingar Seðlabankans um hvernig staðið verður að losun gjaldeyrishafta draga þó úr líkum á að gengið hafi veruleg áhrif. Verði Icesave samþykkt er málið talið úr sögunni að mestu eftir tvö ár, en þá verða enn eftir önnur tvö ár í gjaldeyrishöftum.

Icesave 7. hluti: Lítill hluti kostnaðar við hrun bankanna

Standist áætlun samninganefndar Íslands vegna Icesave mun 32 milljarða króna kostnaður falla á ríkissjóð samþykki landsmenn Icesave-samninginn næsta laugardag. Þótt sú upphæð sé há í flestu samhengi bliknar hún í samanburði við annan kostnað ríkisins vegna bankahrunsins.

Icesave 5. hluti: Óvissa um minnihluta eigna þrotabúsins

Mat á eignum þrotabús Landsbankans skiptir höfuðmáli þegar reynt er að meta hversu há upphæð gæti fallið á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave. Í eignasafninu leynast hundruð milljarða í reiðufé, útlánum og í hlutabréfum í félögum á borð við verslunarkeðjuna Iceland Foods.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.