Innlent

Skipuleggja risahöfn og alþjóðaflugvöll á Langanesi

Alþjóðaflugvöllur, sem yrði sá næst stærsti á Íslandi, verður á Langanesi í tengslum við stórskipahöfn, samkvæmt aðalskipulagi, sem sveitarstjórn Langanesbyggðar hyggst afgreiða á morgun. Landeigandi kallar þetta loftkastala.

Við greindum í síðustu viku frá áformum um risahöfn í Gunnólfsvík undir Langanesi en þar gera sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur ráð fyrr iðnaðarlóðum sem hentað gætu olíu- og gasvinnslustöðvum. Forsendur í aðalskipulagstillögunni eru að höfnin verði umskipunarhöfn vegna siglinga yfir heimskautið og að muni hún þjóna olíuvinnslu framtíðarinnar, ekki aðeins á Drekasvæði heldur einnig við austur Grænland.

Í skipulagstillögunni er jafnframt gert ráð fyrir því að Þórshafnarflugvöllur verði stækkaður. Í stað einnar 1.200 metra langrar brautar verði tvær 2.200 metra langar brautir fyrir millilandaflug og flugskýli fyrir þyrluþjónustu vegna olíuborpalla. Hérlendis yrði einungis Keflavíkurflugvöllur stærri en þessi völlur.

Flugvöllurinn yrði í landi Syðra-Lóns en Guðmundur Vilhjálmsson, talsmaður eigenda jarðarinnar, er ekki kátur. Hann kveðst þó fyrst og fremst mótmæla aðferðafræðinni, - að sveitarfélagið skuli skipuleggja flugvöll og þjóðvegi án samráðs við eigendur landsins.

Hann kveðst í sjálfu sér ekki útiloka alþjóðaflugvöll þarna, sé það raunhæft. Hann telji þetta hins vegar vera mikla loftkastala, og ef þeir fari í inn á skipulag, bindi það hendur landeigenda, og þeir geti ekki skipulagt aðra starfsemi á meðan. Guðmundur tekur sem dæmi að þeir gætu ekki selt lóðir undir frístundabyggð ef búið væri að skipuleggja landið undir flugvöll. Sveitarstjórn Lannganesbyggðar stefnir að því að afgreiða skipulagið frá sér á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×