Enski boltinn

Arsene Wenger: Enska úrvalsdeildin er í forgangi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, gladdist yfir tapi Manchester United á móti Chelsea því það hjálpar hans mönnum í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. United er með fjögurra stiga forskot á Arsenal en Arsenal-menn eiga leik inni.

„Úrslitin í Chelsea-leiknum hjálpa okkur mikið í titilslagnum en jafntefli hefði líka verið góð úrslit. Þetta snýst bara um það núna að við vinnum okkar leiki. Stöðugleikinn hjá mínum mönnum mun ráða úrslitum í keppninni um titilinn," sagði Arsene Wenger. Hann segir að deildin sé í forgangi hjá sér.

„Enska úrvalsdeildin er mikilvægasta keppnin af þeim öllum því þú vinnur hana eftir 38 leiki. Það þarf bara að vinna fimm eða sex leiki til þess að verða deildarbikarmeistari. Við eigum eftir heimaleik á móti United og við verðum bara að sjá hvernig málin standa fyrir þann leik," sagði Wenger.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að vera sterkir á heimavelli. Við töpuðum stigum á heimavelli í byrjun tímabilsins en höfum verið mjög stöðugir þar síðan í nóvember," segir Wenger. Hann er ekkert að sækjast sérstaklega eftir einhverju uppgjöri á móti Sir Alex Ferguson.

„Það gefur þessu ekkert meira gildi að vera að keppa við United um titilinn því það er ánægjulegast af öllu að vera með í titilbaráttunni. Þetta verður jafn og spennandi og ég er ekki búinn að útiloka Chelsea eða Man City því allir geta auðveldlega tapað stigum," sagði Wenger.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×