Innlent

Stjórnarþingmaður: Erfitt fyrir forsetann að synja ekki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lilja Mósesdóttir segir erfitt fyrir forsetann að synja ekki.
Lilja Mósesdóttir segir erfitt fyrir forsetann að synja ekki.
„Mér finnst mjög erfitt fyrir forsetann að fara gegn því að senda þennan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þessi fjöldi undirskriftasöfnunar er kominn," sagði Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Þar tókst Lilja á við þær Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og Ólínu Þorvarðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar, um Icesave lögin sem samþykkt voru á Alþingi í síðustu viku.

Við atkvæðagreiðsluna í þinginu greiddi Lilja atkvæði gegn samningunum, en þær Ragnheiður og Ólína greiddu atkvæði með samningunum. Þær Lilja og Ragnheiður greiddu hins vegar báðar atkvæði með því að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, en Ólína greiddi atkvæði gegn því.

Ólína sagði á Bylgjunni í dag að það yrði að fara að skerpa reglur varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu og fá skýra mynd á það hvaða mál væru tæk til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hún að mál eins og þau sem snertu fjármál þjóðarinnar og óvinsælar en óhjákvæmilegar aðgerðir væru ekki til þess tækar að senda þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Undir það sjónarmið tók Lilja ekki.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði að menn mættu ekki túlka stöðuna þannig að ef málið færi fyrir dóm þá myndi það aldrei kosta Íslendinga neitt. „Þetta er svo rangur málflutningur. Það er bara ekki þannig að það hverfi frá okkur. Þó svo að við förum lagalegu leiðina og með þetta í dóm að það mun alltaf kosta okkur," sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×