Fótbolti

Danskur sjónvarpsmaður: Væru mikil vonbrigði að komast ekki í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Christian Høgh Andersen, sjónvarpsmaður á TV2 í Danmörku, reiknar með að leikmenn danska U-21 liðsins munu ekki vanmeta íslenska liðið fyrir leik liðanna í kvöld.

„Hinn venjulegi Dani telur að leikurinn í kvöld ætti að vera formsatriði fyrir danska liðið," sagði Andersen en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „Það er vegna þess að þegar að A-landsliðið spilar við Ísland finnst honum að það eigi að vinna Ísland."

„En ef þú spyrð leikmennina sjálfa vita þeir vel að Ísland á marga góða unga leikmenn og þeir búast við erfiðum leik."

Hann segir að gengi íslenska liðsins á EM í Danmörku hafi komið sér á óvart. „Ég sá fyrir mótið að þeir höfðu ekki tapað tólf af fjórtán leikjum sínum í undankeppninni og nú hafa þeir tapað tveimur leikjum í úrslitakeppninni. Þetta hefur því komið mér nokkuð á óvart, sérstaklega að liðið skyldi hafa tapað fyrir Hvíta-Rússlandi."

Andersen segir að danska liðið hafi ekki farið vel af stað á mótinu en þeir hafi virkað taugaóstyrkir í leiknum gegn Sviss um síðustu helgi. „Í seinni leiknum fannst mér þeir spila mjög vel og buðu þeir upp á frábæran knattspyrnuleik gegn Hvíta-Rússlandi."

Markmið danska liðsins er að komast í undanúrslit en liðið fellur úr leik ef það tapar fyrir Íslandi í kvöld. „Það væru því mikil vonbrigði fyrir danska liðið að komast ekki í undanúrslitin, einnig vegna þess að þá á það ekki lengur möguleika á að komast á Ólympíuleikana á næsta ári."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×