Fótbolti

Dönsku leikmennirnir fá ekki að vita stöðuna í hinum leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Danir fagna öðru marka sinna í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi.
Danir fagna öðru marka sinna í leiknum gegn Hvíta-Rússlandi. Nordic Photos / AFP
Keld Bordinggaard, þjálfari danska U-21 liðsins, hefur ákveðið að leikmenn sínir fái ekki upplýsingar um hvernig staðan er í hinum leik A-riðilsins á meðan leikurinn við Ísland fer fram í kvöld.

Danmörk er úr leik ef liðið tapar fyrir Íslendingum í kvöld. Ef liðin skilja jöfn eða Danir vinna sigur þurfa þeir samt að treysta á hagstæð úrslit úr leik Hvíta-Rússlands og Sviss á sama tíma.

Hvíta-Rússland og Danmörk eru nú jöfn að stigum en ef bæði lið gera jafntefli komast Danir áfram. Sigri Svisslendingar dugir Dönum einnig jafnteflið.

Ef Hvíta-Rússland sigrar í kvöld þurfa þeir helst að gera það með tveggja marka mun til að Danir komist einnig áfram í undanúrslit.

„Það hefur slæm áhrif á leikmenn ef þeir þurfa að hafa áhyggjur af framvindu mála í öðrum leik,“ sagði Bordinggaard í samtali við danska fjölmiðla.

Nicki Bille Nielsen, sóknarmaður danska liðsins, vill þó gjarnan fá að vita stöðuna í hinum leiknum. „Það gæti gert okkur gott. Ef við þurfum að skora þá er ágætt að fá að vita það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×