Fótbolti

Aron Einar: Vona að Íslendingar slökkvi á Twitter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Aron Einar Gunnarsson segir að íslensku leikmennirnir séu svekktir með að hafa dottið úr leik á EM í Danmörku en vonar að Íslendingar séu engu að síður stoltir af liðinu.

Ísland vann í dag 3-1 sigur á Danmörku en það dugði ekki til að komast áfram. Ísland var búið að tapa sínum fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu og reyndist það á endanum of stór hindrun, þótt litlu mátti muna í kvöld.

„Við vorum sársvekktir og bara búnir á því. Við gáfum okkur alla í þetta og eins og sást eftir leikinn var ég algjörlega búinn á því. Ég veit ekki hvað ég hljóp marga kílómetra í þessum leik. Ég þurfti meira að segja að þykjast vera meiddur til að hvíla mig. En við vorum góðir í dag. Við sýndum Íslendingum og okkur sjálfum hversu góðir við erum. Við getum verið stoltir."

„Auðvitað langaði okkur áfram og við vorum hársbreidd frá því. En við komum okkur í þessa stöðu sjálfir. Við getum verið sáttir í þessum leik en við þurftum að gera betur gegn Hvíta-Rússlandi og gegn Sviss. Við reyndum að klóra í bakkann og gerðum það svo sannarlega. Ég vona að Íslendingar hafi verið stoltir í dag og slökkt á Twitter-aðdáendum."

„Við vorum í fyrsta sinn á stórmóti og leggjum nú Dani í fyrsta sinn. Við lögðum okkur alla fram í dag og getum verið stoltir af sjálfum okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×