Íslenski boltinn

Jón Rúnar: Ég á ekki von á öðru en að KSÍ-menn taki þessu vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Rúnar Halldórsson.
Jón Rúnar Halldórsson.
FH-ingurinn Jón Rúnar Halldórsson er formaður samtakanna Íslenskur Toppfótbolti sem eru ný samtök félaga í efstu deild karla í knattspyrnu. Jón kynnti nýju samtökin fyrir fjölmiðlum í dag. Félagið byggir á grunni Félags formanna í efstu deild karla sem hefur starfað síðan 1994 en þurfti að stofna ný samtök?

„Samtökin hafa verið óformleg hingað til og hafa ekki haft nein skýr markmið. Það sem við erum að gera núna er að við setjum okkur skýr markmið sem kallar á meiri innbyrðis samvinnu félaganna. Í því felst meðal annars þekkingaröflun og út á við komum við meira fram sem ein heild. Við munum að sjálfsögðu hafa meiri áhrif þannig og áhrif til þess fyrst og fremst að reyna að stækka kökuna sem allir eru að borða. Eftir því sem hún stækkar því meira fáum við og aðrir," segir Jón Rúnar Halldórsson.

„Við munum fyrst og fremst reyna að hafa meiri afskipti af því sem við teljum að snúi beint að okkur. Það eru allskonar samningar sem er verið að gera innan sambandins. Við teljum að við þurfum að fá aðkomu að gerð þeirra. Svo viljum við líka koma að framkvæmd mótsins og þar fram eftir götunum," segir Jón Rúnar en hvernig verið væntnalegt samvinna við Knattspyrnusamband Íslands.

„Ég á ekki von á öðru en að KSÍ-menn taki þessu vel. Þó að einhverjir hafi verið að reyna að búa til einhvern núning þarna á milli þá hefur alls ekki verið svo, ekki af okkar hálfu og ég held örugglega ekki af þeirra hálfu heldur. Þarna sjáum við fleiri leggjast á árarnar og við erum allir að reyna að fara í sömu áttina," segir Jón Rúnar.

Hugmyndin kemur frá Norðurlöndunum og þá sérstaklega frá Norðmönnum sem kynntu fyrir formönnum íslenskra félaga sína útgáfu af svona samtökum í Noregi. En hvaða árangri náðu Norðmenn?

„Það voru fyrst og fremst í kringum sjónvarpssamninga og aðra styrktarsamninga og þá hvað varðar peningalegu hliðina. Það skilaði sér líka hvað varðar faglegu hliðina því með samstilltu átaki hafa þeir náð í gegn allskonar mál hvað varðar þjálfun og aðstöðu," segir Jón Rúnar.

„Við erum að hoppa á þann vagn sem er þegar í umferð. Þetta eru 30 deildir víðs vegar um Evrópu sem eru að gera þetta og það er svona sem menn eru að vinna þetta þar og við erum að fara þá leið. Auðvitað þurfum við að aðlaga allt að okkar umhverfi en meginmarkmiðin eru þau sömu," segir Jón Rúnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×