Enski boltinn

Roy Hodgson sér eftir því að hafa móðgað stuðningsmenn Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, var ekki upplitsdjarfur á Anfield á miðvikudaginn.
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, var ekki upplitsdjarfur á Anfield á miðvikudaginn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roy Hodgson, stjóri Liverpool, hefur boðið stuðningsmenn félagsins afsökunar á orðum sínum eftir tapleikinn á móti Wolves á Anfield í fyrrakvöld. Það var mikið púað á Hodgson eftir áttunda deildartap liðsins á tímabilinu en lið lék skelfilega illa í leiknum. Stjórinn svaraði því með því að gagnrýna stuðningsmennina harðlega en hefur nú tekið orð sín til baka.

Hodgson var mjög pirraður eftir leikinn og skaut þá á stuðningsmenn Liverpool. „Hvar hefur hinn frægi Anfield-stuðningur verið í minni tíð? Ég hef aldrei fundið fyrir honum síðan ég tók við liðinu," sagði Hodgson þá meðal annars en þau orð fóru mjög illa í alla í Liverpool.

Það var komið annað hljóð í Hodgson á blaðamannafundi í morgun. „Ég er mjög vonsvikinn og sé að sjálfsögðu eftir því ef að ég hef móðgað stuðningsmenn Liverpool á einhvern hátt," sagði Hodgson við blaðamenn en þessi orð hans fóru mjög illa í alla í Bítlaborginni og gætu þýtt það að hann yrði hreinlega rekinn frá félaginu.

Nýju eigendurnir vilja ekki skipta um stjóra á miðju tímabili en gengi liðsins og spilamennskan inn á vellinum hefur verið hörmuleg stóran hluta tímabilsins og töp á Anfield fyrir liðum eins og Northampton Town, Blackpool og nú síðasta Wolves hafa aukið óánægju stuðningsmanna til mikilla muna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×