Innlent

Viðtal við Jenis: Fólkið vill að konan sé heima, ekki í pólitík

Klemens Ólafur Þrastarson skrifar
Jenis av Rana.
Jenis av Rana. MYND/Klemens Ólafur Þrastarson

Jenis av Rana, maðurinn sem ekki vill sitja til borðs með lesbískum forsætisráðherra Íslands, er formaður hins kristilega Miðflokks í Færeyjum. Klemens Ólafur Þrastarson, blaðamaður Fréttablaðsins, ræddi við hann í ágúst í fyrra vegna fréttaskýringa sem hann gerði í tilefni kreppuláns Færeyinga. Hér á eftir fer að mestu óbirt viðtal við þingmanninn, þar sem hann segir samkynhneigð vera í mótsögn við Biblíuna og að ESB sé óguðlegur félagsskapur. Einnig ræðir hann um þátttöku kvenna í stjórnmálum, og segir að Færeyingar myndu ekki höndla lesbískan lögmann. Hann segir að Íslendingar eigi að snúa sér til Herra Guðs og býðst til að hjálpa til við að stofna kristilegan flokk á Íslandi.

Jenis av Rana er formaður hins kristilega Miðflokks í Færeyjum. Hann starfar einnig sem læknir og tekur á móti blaðamanni á stofu sinni, að loknum vinnudegi. Á biðstofunni er mikið af kristilegu lesefni, Ísraelstíðindi og þess háttar. Hann býður til sætis og við byrjum að tala um lánið sem Færeyingar veittu Íslendingum þegar flestar aðrar þjóðir héldu að sér höndum.

Manstu hvernig það bar til að Færeyingar ákváðu að veita Íslendingum kreppulánið?

Það var fjármálaráðherrann sem hringdi í mig út af þessu. [Miðflokkurinn er í stjórnarandstöðu]. Svo hittust allir formenn flokkanna seinna. Þetta var góð hugmynd og mig minnir að allir hafi tekið undir þetta samstundis. Það þótti fullkomlega eðlilegt og aldrei var nokkur vafi á að þetta væri rétt. Þetta var aldrei neitt spursmál, held ég. Ég var á landsfundi í nóvember, minnir mig, þegar hann hringdi og ég spurði strax félaga mína í þingflokknum og þeir voru allir á þessu. Að sjálfsögðu vildi maður hjálpa. En þá var auðvitað engin kreppa í Færeyjum.

Það kæmi kannski annað hljóð í strokkinn núna?

Nei, þetta rúllar nú ágætlega held ég. Útgerðarmenn eiga í basli og það er rætt um erfiðleika í bönkunum. Einhverjir misstu vinnuna í Klakksvík, en þeir fengu flestir vinnu fljótlega í eldislaxi í Leirvík. Vinnuveitendur þar voru ánægðir, því þeim hafði gengið illa að fá starfsfólk. Við finnum því ekki mikið fyrir kreppunni enn, en það er spurning hvort hún kemur með vetrinum. Bankarnir og tryggingarfélög hafa mótmælt auknum álögum á sig, sem kynntar voru sem mótbragð við kreppunni. Bankarnir segja að það sé alls engin kreppa hér.

En sagði enginn sem svo að Íslendingar gætu sjálfum sér um kennt að setja landið svona á hausinn?

Nei, það held ég ekki, kannski hefur einhver sagt það svona úti í bæ. En ef einhver er í neyð þá hjálpar maður honum. Maður spyr ekki hví hann sé í neyð. Það gerir maður kannski frekar eftirá. Þetta var líka mikið áfall fyrir okkur. Ég held að Færeyingar hafi alltaf litið á Íslendinga sem stóra bróður. Við höfum verið stoltir af ykkur. Og nei, þótt þetta væri að gerast núna myndi það ekki breyta því að Færeyingar réttu ykkur hjálparhönd. Það var ekki hinn almenni Íslendingur sem skapaði kreppuna. Hann hefur kannski valið ranga stjórnmálamenn og foringja, en ekki kreppuna.

Hvar stendur Miðflokkurinn í sjálfsstjórnarmálum?

Rather today than tomorrow. Við trúum því altso að það séu mannréttindi að stjórna sér sjálfum. Minna stolt getur ein þjóð ekki haft. Við höfum viljað tala við Dani um fjárhagslegt uppgjör milli þjóðanna, aftur í tíðina líka. Því það sem stendur í vegi fyrir frelsi Færeyinga er fjárhagslegur ótti. Fólk segir: „Hóhó, hvernig eigum við að lifa án gjafa Dana?" En Danir gefa ekki neitt. Við erum sannfærð um að uppgjör myndi leiða í ljós að þetta er engin gjöf. Þú getur ekki byggt framtíð þína á gjöfum. Þú byggir hana með eigin höndum. Unglingur getur ekki eflst með gjöfum frá foreldrum sínum, hann þarf að reyna sig sjálfur. Við trúum því að Færeyjar séu nógu ríkar til að klára sig utan þessarar svokölluðu gjafar. Við trúum því að Danir taki meira úr eyjunum en þeir leggja til þeirra. Öll þessi verslun sem við eigum við Dani og svo framvegis. En þótt svo væri, ef þetta er raunveruleg sexhundruð milljóna gjöf á ári frá Dönum, þá trúum við samt að við getum verið án hennar og minnkað hana niður í ekkert. Svona gjöf getur orðið að þægilegum kodda til að sofa á en við viljum heldur að hendur standi fram úr ermum.

Nú þegar sjálfstæði stóri bróðirinn er farinn á hausinn, og reynir að komast í ESB, það hlýtur að hafa áhrif á ykkur og sjálfstæðishugsunina?

Nei, ekki á okkar flokk. Kannski á aðra þingmenn, ekki okkur. Við trúum því ekki að Ísland hafi lent í kreppunni út af því að það er sjálfstætt land. Þetta var léleg stjórnun. Sambandsflokkurinn, hann segir: „Sjáiði bara Ísland núna!" En það voru bankar og leiðtogarnir sem brugðust. Þetta var græðgi, þeir gleymdu allri samábyrgð, það hefur ekkert með sjálfsstjórn að gera. Ísland er í vandræðum en það eru fleiri lönd líka. Danmörk er í vandræðum. Og ef Ísland fer inn í ESB, þá færi það í félagskap jafnrétthárra þjóða. Það er annað en félagskapur þar sem þú ert underdog.

En eruð þið ekki á móti ESB?

Jú, við í Miðflokknum viljum ekki í ESB, en það er af orsökum sem eru ólíkar ykkar aðstæðum. Sjáðu til, Miðflokkurinn byggir á kristilegum grundvelli og ESB hefur sett saman nýja stjórnarskrá. Eitt sem einkennir hana er að Guð, hinn kristna Guð, mátti ekki nefna. Þetta fór fyrir brjóstið á okkur. Lýðræði er ekki aðalatriði í ESB. Þingið þar hefur ráðgefandi hlutverk en ekki afgerandi. Við köllum þetta klúbb hinna ríku. Við eigum í samstarfi við ESB, en það eru nú bara þrettán prósent af fólki heimsins sem býr þar. Þetta er okkar afstaða, að það sé betra að vera fyrir utan þennan ríka, óguðlega klúbb.

Þið eruð sá flokkur á þingi sem leggur langmesta áherslu á kristileg gildi...

Það eru kristnir í öllum flokkunum. En Miðflokkurinn er sá eini tekur kristna trú inn í pólitíkina og talar opinberlega út frá Biblíunni í þinginu og ráðfærir sig við Biblíuna þegar hann tekur ákvarðanir.

Einn þingmaður hætti í Þjóðveldisflokknum og kom til ykkar þegar Þjóðveldið kaus með lögum sem bönnuðu að fólki væri mismununað vegna kynhneigðar. Hvað finnst ykkur um homma og lesbíur?

Við teljum ekki að lög landsins eigi að breytast til að þóknast hópi sem, í okkar augum, óskar að lifa lífi sem er í mótsögn við Biblíuna. En það þýðir ekki að við séum á móti þessum hópi, þvert í móti. Við eigum í góðu sambandi við samkynhneigða en við getum ekki breytt lögum til að samþykkja líf sem fer gegn Biblíunni. Sá er okkar skilningur. En þeir eiga absolútt að geta átt heima í Færeyjum. Stjórnmálaflokkar eiga ekki að blanda sér í það hvernig fólk lifir. Stjórnmálamenn eiga að vernda lög landsins, ella breyta þeim þegar svo stendur til.

Hvað með lög sem banna mismunum gegn öðru fólki, svo sem svertingjum eða konum?

Að okkar mati þurfti þessi málsgrein ekki að vera í lögum. Það eru nú þegar til lög um að enginn hefur leyfi til að ráðast á eða fara illa með annað fólk. Ef ég fer út á götu og maður ræðst á mig fer lögreglan ekki að spyrja mig hvort ég sé svartur eða hommi. Þetta snerist um að bæta kynhneigð sérstaklega inn í lögin og við sögðum að það ákvæði ætti bara að fara burt. Það hefur enginn leyfi til að fara illa með fólk.

Hér eru fáar konur í stjórnmálum. Hvers vegna?

Ég veit það nú ekki. Það eru nokkrar sem bjóða sig fram en þær eru bara ekki kosnar. Þegar það eru ráðstefnur í okkar flokki þá er um það bil helftin konur. Þegar við stillum upp listanum er bara lítill partur af þeim sem vill bjóða sig fram og þegar loks er kosið þá hljóta þær ekki kjör! [Hlær.] Spurðu mig ekki, þetta er eitthvað sem kjósandinn vill. Færeyjar eru land sem er, umfram önnur lönd, merkt af kristinni trú og það sést víða. Fólk vill fjölskyldulíf og að konan sé heima. Oft vinnur konan ekki úti eða ekki mikið. Þetta eru áhrif frá Biblíunni líka, að konan sé mest heima og sinni börnum. Það er ekki endilega náttúrulegt að kona sé í pólitík. En hér hefur jú verið kvenkyns lögmaður, svo þær eru nokkrar. En það er ekki algengt. Ég er pólitíski formaðurinn í okkar flokki og þingflokksformaður, en formaður stjórnar flokksins, formaðurinn sem stjórnar flokksstarfinu, hann er kona.

Forsætisráðherra Íslands er kona og lesbísk að auki. Þetta myndi aldrei gerast í Færeyjum, heldurðu?

[Jenis skellir upp úr.] Ég veit það ekki, jújú ef hún væri orðin formaður og yrði kosin, þá kannski. Flestir flokkar í Færeyjum styðja lög gegn mismunun og þeir tala á jákvæðum nótum um homma og lesbíur. En ef þú spyrðir fólkið í flokkunum þessarar spurningar í alvöru myndi það segja neineinei í ofboði. Þótt þau séu svona jákvæð á yfirborðinu gætu þau ekki höndlað það, held ég. Nei, þetta er ekki á næsta leiti í Færeyjum.

Að lokum, er nokkuð sem þú vildir koma áleiðis til Íslendinga, svona út af kreppunni, heldurðu til dæmis að hún verði löng?

Löng? Ég vil segja við Íslendinga að þeir eigi að snúa sér til Herra Guðs og ég vona að við fáum brátt flokk á Íslandi sem líkist Miðflokknum. Ég skal hjálpa til með það. Við erum ungur flokkur, byrjuðum 1992 og erum komin með 8,4 prósent fylgi og á uppleið. Það væri gaman að hjálpa Íslendingum að byggja upp Miðflokk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×