Innlent

Hagstæðustu vextir Seðlabanka til álita

efnahagsmál Stjórnvöld eru að kanna hvort í lögum finnist nægileg leiðsögn til að bregðast við dómi Hæstaréttar í gær um að gengistryggð lán séu ólögmæt. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra bendir á að samkvæmt þeim beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur ranglega af skuldara haft. Þeir sem hafa borgað of mikið af erlendum lánum gætu því átt von á endurgreiðslu. Sé krafan óverðtryggð á samkvæmt lögunum að miða við hagstæðustu óverðtryggðu útlánsvexti Seðlabankans.

Steingrímur segir ótímabært að fara út í það hvað stjórnvöld geri vegna þeirra sem nú þegar hafa orðið gjaldþrota vegna erlendra lána, hvort ríkið verði til dæmis málsvari þeirra í málssókn gegn lánveitendum. Hins vegar eigi að vera tiltölulega auðvelt að reikna út þá lánasamninga sem enn séu í gildi og endurgreiða fólki eftir atvikum.

Ljóst sé að þetta verði til hagsbóta fyrir þau sem tóku gengisáhættu. „Ég býst við að mörgum létti sem finnst sanngjarnara að reikningurinn endi þar sem hann endar heldur en að hann hvíli á heimilunum," segir hann.

Almennir vextir óverðtryggðra skuldabréfalána Seðlabanka í júní 2007 voru sextán prósent, svo dæmi sé tekið. Erlend lán hafa allt að tvöfaldast á þeim tíma.

- kóþ, - sbt, - jab /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×