Innlent

Yngstu þjófarnir voru átta ára

Yngstu einstaklingarnir sem lögregla hafði afskipti af vegna hnupls á síðustu þremur árum voru átta ára, en hinir elstu 88 ára. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði Ríkislögreglustjóra, sem embættið hefur tekið saman fyrir árin 2007 til 2009.

Flestir brotamenn voru á aldrinum 16 til 20 ára. 74 prósent voru með íslenskt ríkisfang. Útlendingar sem hlut áttu að máli voru í ellefu prósent tilvika með litháískt ríkisfang og í tíu prósent tilvika með pólskt.

Sé litið til fjölda brota fyrir nýliðinn aprílmánuð þá eru hegningarlagabrot ríflega þúsund talsins, sem er svipað og verið hefur í þessum mánuði undanfarin ár. Hraðakstursbrot voru að meðaltali 131 á dag, þjófnaðarbrotin að meðaltali tólf á dag og eignaspjöll átta. Hraðakstursbrotum og eignaspjöllum hefur fækkað milli ára en þjófnaðarbrotum fjölgað.

73 fíkniefnabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu, nítján á Suðurnesjum og ellefu í umdæminu á Eskifirði sem nær yfir bróðurpart Austurlands. Eru það óvenjumörg brot í því umdæmi.- jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×