Íslenski boltinn

Gummi Ben: Þurfum á nýju blóði að halda

Kristinn Páll Teitsson skrifar

„Það eru allir leikir erfiðir fyrir okkur, við vissum það fyrir mót en það er engin afsökun fyrir þessu. Við áttum hrikalega lélegan kafla í seinni hálfleik sem skilar sér í því að við steinliggjum hér.  Maður tapar leikjum ef maður fær á sig fimm mörk og maður vinnur ekki leiki nema maður nýti færin sín, það hefur sýnt sig" sagði Guðmundur Benediktsson þjálfari Selfyssinga eftir 5-2 tap gegn Fylki í Árbænum.

„ Við hefðum getað komist yfir í fyrri hálfleik, við vorum ágætir sóknarlega en það þarf að nýta færin sín og okkur var grimmilega refsað fyrir það. "

Leikmenn Selfoss áttu slakan kafla í seinni hálfleik þar sem Fylkismenn skoruðu fjögur mörk á 20 mínútum og galopnaðist vörn Selfyssinga oft á tíðum.

„ Við vorum komnir 2-0 undir og við það opnast vörnin meira. Við erum ekki að fara að pakka í vörn þegar við eigum séns að skora og ná stigum út úr leiknum. Þar gefum við færi á okkur og maður jafnar ekki leiki þegar maður er kominn 5-0 undir. Við náðum þó að sýna smá lit undir lokin og skora tvö mörk en það þarf að sýna það í 90 mínútur, það dugar ekki að spila bara vel í fimm mínútur."

Nú er félagsskiptaglugginn opinn á Íslandi og eru Selfyssingar að fara að styrkja lið sitt samkvæmt Guðmundi, þeir eru búnir að hafa 6 manns á reynslu og ætla að reyna að styrkja liðið.

„Við þurfum svo sannarlega á nýju blóði að halda, það sýndi sig hér í kvöld og hefur sýnt sig að undanförnu að við þurfum að hressa upp á liðið. Ég er hinsvegar lítið að spá í því, það þarf að laga margt fyrir næsta leik og setja saman hóp fyrir það " sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×