Innlent

„Ekkert til sem heitir algjör aðskilnaður ríkis og kirkju“

Mynd/GVA
Það er ekkert til sem heitir algjör aðskilnaður ríkis og kirkju, segir biskup Íslands. Allir hafi þó rétt á því að mótmæla og hafa skoðanir.

Í gær söfnuðust 30 manns saman við Hallgrímskirkju á kröfufundi um aðskilnað ríkis og kirkju. Áformað er að mótmæla reglulega í sumar, en lítið hefur farið fyrir umræðum um aðskilnað ríkis og kirkju undanfarið.

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, viðurkennir rétt mótmælendanna til að hafa þessa skoðun. Hann segir hins vegar ekkert vera til sem heiti algjöran aðskilnað ríkis og kirkju, nema kannski í löndum á borð við Norður-Kóreu þar sem trúarbrögð séu bönnuð.

„Það er ekkert til sem heitir algjör aðskilnaður ríkis og kirkju vegna þess að ríki og kirkja og trú og samfélag eru svo samofin. Það eru til ótal mismunandi módel af slíkri samvinnu eða slíku sambandi," segir Karl.

Hann tekur sem dæmi að í Bandaríkjunum njóti trúfélög margvíslegs stuðnings, þó það sé kallað aðskilnaður. Samfélagið þurfi þó á kirkjunni að halda.

„Í því samfélagi sem við lifum í nú í dag á þessum tímum er afar mikilvægt að grundvallarstofnanir í þjóðfélaginu sem okkar þjóðfélag hefur byggt á þ.e. kirkjan, skólar, heimilin og ríkisvaldið, þessar grundvallarstofnanir að þær séu sterkar," segir Karl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×