Enski boltinn

Tvö sjálfsmörk hjá Leeds

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kasper Schmeichel, markvörður Leeds.
Kasper Schmeichel, markvörður Leeds. Nordic Photos / Getty Images

Leeds tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttunni í ensku B-deildinni í dag er liðið gerði 3-3 jafntefli við Portsmouth.

Leeds var komið í 2-0 eftir tíu mínútna leik með mörkum Max Gradel og Jonathan Howson.

David Nugent minnkaði muninn fyrir Portsmouth á 33. mínútu en Bradley Johnson kom Leeds í 3-1 á 62. mínútu.

Aðeins mínútu síðar varð Andy O'Brien fyrir því óláni að skora sjálfsmark og hann gerði slíkt hið sama í blálok leiksins. Niðurstaðan því svekkjandi jafntefli fyrir gamla stórveldið en liðið er í fjórða sæti deildarinnar með 40 stig, rétt eins og Cardiff og Swansea sem eru í 2.-3. sæti.

Hermann Hreiðarsson var á bekknum hjá Portsmouth og kom ekki við sögu. Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson voru ekki í leikmannahópi Reading sem gerði 1-1 jafntefli við Hull í sömu deild.

QPR, lið Heiðars Helgusonar, er á toppi deildarinnar með 47 stig eftir 2-0 sigur á Coventry í hádeginu í dag.

Huddersfield tapaði fyrir Southampton, 4-1, í ensku C-deildinni í dag. Jóhannes Karl Guðjónsson kom inn á sem varamaður í fyrrnefnda liðinu þegar 20 mínútur voru til leiksloka.

Kári Árnason lék allan leikinn fyrir Plymouth sem gerði 1-1 jafntefli við Notts County. Þá var leik Hartlepool og Leyton Orient frestað en Ármann Smári Björnsson leikur með fyrrnefnda liðinu.

Huddersfield er í þriðja sæti deildarinnar með 32 stig, Hartlepool í því ellefta með 29 og Plymouth í 15. sæti með 26 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×