Lífið

Fimm íslenskar hljómsveitir á Eurosonic

dikta Poppararnir í Diktu spila á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi á næsta ári.
dikta Poppararnir í Diktu spila á Eurosonic-hátíðinni í Hollandi á næsta ári.
Hljómsveitirnar Dikta, Who Knew og Endless Dark ásamt tónlistarkonunum Ólöfu Arnalds og Láru spila á tónlistarhátíðinni Eurosonic á næsta ári. Þetta er árleg bransahátíð sem er hugsuð sem stökkpallur fyrir upprennandi flytjendur og verður hún í þetta sinn haldin 12. til 15. janúar.

Á síðustu Eurosonic-hátíð spiluðu FM Belfast, Agent Fresco og Seabaer. Sú fyrstnefnda var valin ein af tíu athyglisverðustu hljómsveitum hátíðarinnar og var hún í framhaldinu valin til að spila á tónlistarhátíðum víða um heim, þar á meðal Hróaskeldu. FM Belfast varð einnig efst á lista ásamt ensku sveitinni The XX yfir flestar tónleikabókanir hljómsveita á árinu í kjölfar Eurosonic. The XX var boðið á ellefu hátíðir á meðan íslensku stuðboltarnir fengu níu boðsmiða.

Agent Fresco lenti aftur á móti í leiðinlegu atviki á Eurosonic þegar hátt í fimmtíu þúsund krónum var stolið frá söngvaranum Arnóri Dan og félögum hans, eins og Fréttablaðið greindi frá. Vonandi verður ekkert slíkt uppi á teningnum á næstu hátíð og allir íslensku flytjendurnir komi heim með bros á vör og góða reynslu í farteskinu.

Yfir fimmtíu tónlistarhátíðir í Evrópu taka þátt í Eurosonic til að kanna nýliðunina í evrópskri poppsenu og um leið fá þær stuðning við að bóka minna þekktar hljómsveitir. Þar á meðal eru Glastonbury, Sziget, Benicasim, Hultsfred og Hróarskelda. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.