Lífið

Grípandi tónlistarsamstarf

Þórunn Antonía Magnúsdóttir og Davíð Berndsen hafa leitt saman hesta sína og gefið út grípandi smell.
fréttablaðið/valli
Þórunn Antonía Magnúsdóttir og Davíð Berndsen hafa leitt saman hesta sína og gefið út grípandi smell. fréttablaðið/valli
Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir og tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen hafa leitt saman hesta sína og tekið upp lag saman. Lagið ber titilinn For your love og er skemmtilegt og dansvænt lag sem mun án efa slá í gegn.

Þórunn Antonía segir For you love vera fyrsta lagið sem dúettinn tók upp en að von sé á fleiri slögurum innan skamms. „Ég er búin að vera að vinna að sólóplötu sem mér fannst orðin svolítið alvarleg og þung og mig vantaði smá pepp. Ég þekkti aðeins til Berndsens og datt í hug að það gæti verið skemmtilegt að vinna með honum. Hann er algjör snillingur í því sem hann gerir þannig að það er gott að vinna með honum,“ útskýrir Þórunn.

Aðspurð segir hún samstarfið gott og að þeim komi vel saman. „Hann er alveg ótrúlega fyndinn og frábær strákur og við fíflumst mikið saman.“

Berndsen er þekktur fyrir tilkomumikil og skemmtileg tónlistarmyndbönd og ber þar helst að nefna myndbandið við lagið Super time. Innt eftir því hvort von sé á myndbandi við For your love segir Þórunn Antonía það ekki ákveðið. „Maður veit aldrei. Þetta samstarf er enn á svo miklu byrjunarstigi en mér finnst ekki ólíklegt að við munum gera geðveikt myndband við eitthvað af lögunum. Núna erum við bara í því að semja skemmtilega og grípandi „hittara“,“ segir hún og hlær. - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.