Innlent

Bálreiðir slökkviliðsmenn senda verkfallsverði norður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Slökkviliðsmenn ætla að fara norður til að koma í veg fyrir verkfallsbrot. Mynd/ Pjetur.
Slökkviliðsmenn ætla að fara norður til að koma í veg fyrir verkfallsbrot. Mynd/ Pjetur.
Verði af verkfalli Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna á morgun munu verkfallsverðir á þeirra vegum fara norður á Akureyri og Húsavík til þess að koma í veg fyrir verkfallsbrot, samkvæmt upplýsingum sem Vísir hefur frá slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum.

Eins og fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis greindi frá í dag eru slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn bálreiðir yfir afskiptum starfandi bæjarstjóra á Akureyri af deilu þeirra við launanefnd sveitarfélaganna. Starfandi bæjarstjóri beitti sér fyrir því að slökkvibíll fari til Húsavíkur á morgun ef verkfallið brestur á.

Til að hindra að þetta komi fyrir á morgun munu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn fara fyrst til Akureyrar og skoða stöðuna þar en halda síðan áfram til Húsavíkur. Ekki liggur fyrir hversu stór hópur mun fara. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ætla að halda félagsfund klukkan níu í fyrramálið og þá má búast við því að meðal annars verði tekin ákvörðun um verkfallsvörsluna.

Samningafundur stóð enn yfir í húsnæði Ríkissáttasemjara þegar Vísir kannaði málið um hálfellefuleytið í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×