Innlent

Kvartað til Umboðsmanns vegna tilmæla SÍ og FME

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri kynnti tilmælin ásamt Gunnari Andersen forstjóra FME.
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri kynnti tilmælin ásamt Gunnari Andersen forstjóra FME.
Umboðsmaður Alþingis hefur fengið formlega kvörtun frá gengislánaskuldara vegna tilmælanna sem Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið sendu frá sér í síðustu viku um hvernig skyldi greiða af ólöglegum gengislánum þar til Hæstiréttur sker úr um vaxtakjör.

Fréttastofa hefur afrit af kvörtuninni en þar segir að kvartandi telji að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi farið út fyrir valdsvið sitt og skorti heimild í lögum til að senda hin umdeildu tilmæli. Vísað er til laga um Seðlabankann þar sem ekki sé kveðið á um að Seðlabankinn hafi heimild til senda frá sér almenn tilmæli til handa fjármálastofnunum.

Slík heimild sé hins vegar til í lögum fyrir Fjármálaeftirlitið en að mati þess sem kvartar til umboðsmanns alþingis - megi FME aðeins senda frá sér tilmæli um þau atriði sem FME ber að hafa eftirlit með. Því sé ekki til að dreifa í þessu tilviki, því FME eigi ekki að hafa eftirlit með vaxtakjörum í lánasamningum. Enda hafi Fjármálaeftirlitið lýst því yfir að Neytendastofu hafi borið að hafa eftirlit með lögmæti gengislánasamninga. Auk þess sé það ekki hlutverk þessara stofnana að kveða á um samningskjör eða taka efnislega afstöðu til svona samninga - en með tilmælunum telur sá sem kvartar að þær hafi tekið efnislega afstöðu.

Að mati þess sem kvartar eru tilmælin því illa ígrunduð og eiga sér ekki stoð í lögum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×