Lífið

60% veðja á að Óli skrifi undir

Um 100 Íslendingar hafa veðjað á hvort Ólafur skrifi eða skrifi ekki undir nýju Icesave-lögin.
Um 100 Íslendingar hafa veðjað á hvort Ólafur skrifi eða skrifi ekki undir nýju Icesave-lögin.

„Það er óhætt að segja að veðmálið hafi vakið mikla athygli. Um hundrað manns tóku þátt á tveimur dögum," segir Lárus Páll Ólafsson, sem sér um markaðsmál fyrir Betsson-vefspilavítið á Íslandi.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, liggur nú undir feldi á Bessastöðum og íhugar hvort hann eigi að skrifa undir ný lög um Icesave. Lögin voru samþykkt á Alþingi á miðvikudag í síðustu viku.

Á laugardaginn hóf Betsson að bjóða upp á veðmál sem lauk á hádegi í gær. Veðmálið snérist um hvort Ólafur myndi skrifa undir eða ekki. Stuðlarnir voru 1.55 á já og 2.45 á nei. Um hundrað manns tóku þátt og rúm 62 prósent töldu að Ólafur myndi skrifa undir.

„Vanalega eru ekki sett hámark á veðmál en í þetta skipti var ákveðið að setja þak á veðmálið," segir Lárus, en hámarksupphæð var 50 evrur, eða um 9.000 krónur. Ef þeim sem eru bjartsýnir á að Ólafur skrifi undir verður að ósk sinni fá þeir rúmar 13.000 krónur í vasann. Þeir sem veðja á að Ólafur synji lögunum fá öllu meira fyrir sinn snúð ef þeir vinna veðmálið, eða um 22.000 krónur.

Lárus segir að Betsson stefni á að bjóða upp á fleiri veðmál af þessu tagi á árinu. Til dæmis er stefnt á að opna fyrir veðmál um úrslit Söngvakeppni Sjónvarpsins og nokkurra kjördæma í væntanlegum sveitarstjórnarkosningum. - afb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×