Lífið

Gestur fundaði með Adam Sandler í Hollywood

Gestur segir Adam Sandler spenntan fyrir verkefni sem hann kynnti en ekki var gengið frá neinum samningum á fundinum í Hollywood.
Gestur segir Adam Sandler spenntan fyrir verkefni sem hann kynnti en ekki var gengið frá neinum samningum á fundinum í Hollywood.
„Þetta er allt mjög venjulegt fólk, það er að segja venjulegt fólk í mínum augum,“ segir Gestur Valur Svansson kvikmyndagerðarmaður.

Gestur Valur átti fund með Adam Sandler í höfuðstöðvum framleiðslufyrirtækis hans, Happy Madison, ásamt Klovn-stjörnunni Casper Christiansen í Culver City fyrir skemmstu.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum átti Gestur fund með Casper í Los Angeles fyrr í sumar þar sem þeir ræddu mögulegt samstarf. Casper las yfir handrit að sjónvarpsþattum sem nú eru í tökum og verða sýndir í Sjónvarpinu eftir áramót og hugsanlegt handrit að Hollywood-mynd. En ekki er sagan öll. Gestur mætti þar að auki í partý hjá þeim Klovn-hjónum en þar var meðal annars Joaquin Phoenix, Óskarsverðlaunahafinn víðfrægi.

En það var óneitanlega fundurinn með Sandler sem var hápunktur ferðarinnar.

„Ég vil sem minnst tjá mig um hvernig mér tókst að fá fundi með Adam Sandler, vil ekki eyðileggja neitt fyrir mér en mér tókst það,“ segir Gestur Valur en Sandler er stórt nafn í Hollywood um þessar mundir og feykilega áhrifamikill innan gamanmyndageirans. Og af þeim sökum ákaflega upptekinn maður. Gestur var að eigin sögn sóttur af bílstjóra framleiðslufyrirtækisins en áréttar að fundurinn hafi ekki verið formlegur heldur mjög einfaldur í sniðum.

„Hann var mjög spenntur fyrir verkefni sem ég kynnti fyrir honum en annars var ég bara aðallega að kynna sjálfan mig og mínar hugmyndir,“ útskýrir Gestur og ber Sandler vel söguna, segir að það hafi verið stutt í spaugið hjá honum.
Fréttablaðið hafði í gær samband við Casper Christiansen sem staðfesti söguna. Hann hefði átt fund með Adam Sandler og Gesti Val í sumar þegar þeir hefðu verið staddir á sama tíma í Los Angeles og að þeir væru að skoða möguleika á að skrifa handrit saman.

„Það er alltaf súrrealískt að sitja á fundi með Íslendingi,“ segir Casper um fundinn og upplýsti um leið að þótt ekkert ákveðið hefði komið út úr fundinum væru allir fundir í Hollywood góðir fundir.

Gestur Valur lýsti því yfir árið 2007 í íslenskum fjölmiðlum að hann væri hugmyndasmiðurinn að hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Næturvaktinni og í fréttatilkynningu sem hann sendi í tengslum við sjónvarpsþáttinn Tríó kynnir hann sig sem slíkur. Gestur sagðist hins vegar ekki vera hræddur um að hann yrði fyrir barðinu á óheiðarlegum amerískum kvikmyndagerðarmönnum, hann hefði tryggt sér einkaréttinn á öllum sínum hugmyndum.

freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.