Innlent

Illugi lagði áherslu á að Glitnir keypti skuldabréf í Stoðum

Í skýrslunni kemur fram að Illugi hafi lagt mikla áherslu á að uppkaupin á bréfum Stoða ættu sér stað.
Í skýrslunni kemur fram að Illugi hafi lagt mikla áherslu á að uppkaupin á bréfum Stoða ættu sér stað.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi stjórnarmaður í Glitni sjóðum, lagði áherslu á að Glitnir keypti skuldabréf í Stoðum af peningamarkaðssjóðum Glitnis fyrir 11 milljarða daginn eftir þjóðnýtingu bankans.

Glitnir sendi forsætisráðherra og fjármálaráðherra minnisblað 30. september 2008, daginn eftir þjóðnýtingu bankans, þar sem fjallað var um peningamarkaðssjóði og skuldabréfasjóði Glitnis. Þar er lagt til að Glitnir banki kaupi skuldabréf útgefin af Stoðum af Glitni sjóðum. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Málið var síðan rætt á fundi Lárusar Welding, bankastjóra Glitnis með Geir Haarde, forsætisráðherra og Árna Mathiesen, fjármálaráðherra - enda var ríkið orðið eigandi Glitnis. Í skýrslunni kemur fram að á fundi Lárusar Welding með Tryggva Þór Herbertssyni, þáverandi efnahagsráðgjafa Geirs og Illuga Gunnarssyni, stjórnarmanni í sjóðum Glitnis, hafi Illugi lagt mikla áherslu á að uppkaupin á bréfum Stoða ættu sér stað. Illugi var á þessum tíma þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Sama dag samþykkti stjórn Glitnis á að kaupa út öll bréf Stoða í Sjóði 9 og Sjóði 1 fyrir 10,7 milljarða. Stoðir voru fyrir þjóðnýtingu Glitnis stærsti eigandi bankans.

Bréfin sem um ræðir eru lítils virði í dag en tjónið af uppkaupunum færðist með þessari aðgerð frá sjóðfélögum í Sjóðum 1 og 9 og yfir á kröfuhafa bankans.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×