Innlent

Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald yfir hrottanum í Laugardal

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að 23 ára gamall karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 7. janúar 2011. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að 23 ára gamall karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 7. janúar 2011. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að tuttugu og þriggja ára karlmaður, sem réðist á stúlku á göngustíg við Suðurlandsbraut í Reykjavík í október síðastliðnum, sæti gæsluvarðhaldi til 7. janúar 2011.

Maðurinn hefur játað að hafa ráðist á sextán ára gamla stúlku við Suðurlandsbraut í Reykjavík þann 11. október síðastliðinn. Að öðru leyti bar hann við minnisleysi vegna ölvunar en í skýrslutöku hjá lögreglu kvað hann enga sérstaka ástæðu hafa verið fyrir árásinni, „nema að hann hafi verið mjög reiður, þar sem honum hafi verið vísað út úr strætisvagni."

Málið vakti mikinn óhug enda átti árásin sér stað um miðjan dag. Stúlkan hlaut meðal annars slæma áverka á höfði en komst við illan leik upp á Suðurlandsbraut þar sem vegfarandi kom henni til aðstoðar og hringdi á sjúkrabíl. Í kjölfarið leituðu lögreglubílar og lögreglumenn á mótorhjólum að manninum í Laugardalnum og víðar, án árangurs.

Stúlkan var lamin í höfuðið með barefli og hlaut sár á hnakka og enni og missti meðvitund. Hún hlaut marbletti á hálsi, framhandlegg, úlnlið og hendi auk axlar og upphandleggs auk annara áverka.

Að mati lögreglustjóra er um sérlega fölskulega árás að ræða þar sem tilviljun réð því hver fyrir varð. „Tilgangurinn hafi verið sá einn að beita ofbeldi. Sú aðferð sem notuð sé þyki sérlega vítaverð og þyki mildi að ekki fór verr. Þá sé óhætt að segja að árás sem þessi sé til þess fallin að hafa veruleg áhrif á sálarheill manna."

Gæsluvarðhalds úrskurðurinn rennur út, eins og fyrr segir, föstudaginn 7. janúar klukkan 16:00.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×