Innlent

Mun verjast af fullum krafti

Jón Ásgeir Jóhannesson Jón Ásgeir ætlar að verjast af fullum krafti samkvæmt yfirlýsingu frá honum.
Jón Ásgeir Jóhannesson Jón Ásgeir ætlar að verjast af fullum krafti samkvæmt yfirlýsingu frá honum.

Jón Ásgeir Jóhannesson sendi frá sér yfirlýsingu vegna afsagna sinna úr stjórnum bresku fyrirtækjanna House of Fraser og Iceland Foods. Þar segir að ákvörðun um afsagnirnar hafi verið tekin í kjölfar málsóknar slitastjórnar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri og fólki sem honum tengist.

„Þessi ákvörðun er tekin með eftirsjá, til að forðast það að félögin verði fyrir óréttmætum skaða á meðan hann [Jón Ásgeir] verst ásökunum Glitnis. Hr. Jóhannesson á engin hlutabréf í félögunum," segir í yfirlýsingunni og bent er á að hann hyggist verjast af fullum krafti gegn hinum fölsku ávirðingum og árétta sakleysi sitt. Hann hyggist ekki tjá sig frekar á meðan á málarekstrinum stendur.

„Þetta er ekki eingöngu að hans frumkvæði, heldur ekki síður vegna þrýstings frá okkur. Við höfum beitt okkar áhrifum í því að Jón Ásgeir gangi úr stjórnum House of Fraser og Iceland," segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans. Skilanefnd bankans á hlut BG Holding, sem áður var í eigu Baugs Group, í House of Fraser og Iceland Foods og sat Jón Ásgeir í stjórnum þeirra í umboði endurskoðunarfyrirtækisins PriceWaterhouseCooper (PWC), sem fer með bú BG Holding fyrir skilanefndina. Páll segir skilanefndina hafa komið því á framfæri við forsvarsmenn PWC að Jón Ásgeir viki úr stjórnum félaganna. „Þetta er ekkert í tengslum við stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur honum," að sögn Páls. - sh/-jab





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×