Erlent

Lekinn reynist meiri

Olía brennd á Mexíkóflóa Óttast er að olían berist í auknum mæli inn á viðkvæm votlendi við strendur Mexíkóflóa.nordicphotos/AFP
Olía brennd á Mexíkóflóa Óttast er að olían berist í auknum mæli inn á viðkvæm votlendi við strendur Mexíkóflóa.nordicphotos/AFP

Olíufélagið BP hefur viðurkennt að olíulekinn í Mexíkóflóa sé meiri en fyrirtækið hefur hingað til gefið upp. Olía hefur nú borist upp á votlendið við strendur Louisiana, auk þess sem hún er byrjuð að berast út í hafstrauma sem flytja hana út á opið haf austur með Flórídaskaga.

Mark Proegler, talsmaður fyrirtækisins, segir að inn í olíurör sem sett var inn í opna olíuleiðslu um helgina streymi nú um fimm þúsund tunnur af olíu á dag. Þetta er einungis hluti af lekanum, en til þessa hefur fyrirtækið haldið því fram að heildarlekinn nemi fimm þúsund tunnum á dag.

Bandaríkjastjórn hefur verið gagnrýnd fyrir að treysta um of á upplýsingar frá BP. Ken Salazaar innanríkisráðherra sagði í gær að stjórnin muni nú láta eigin vísindamenn kanna lekamagnið.

Reynt hefur verið að hamla útbreiðslu olíunnar með flotgirðingum og með því að safna saman olíu og brenna hana undir eftirliti.

Um helgina á að reyna að stöðva lekann með því að pumpa þungri leðju og síðan steinsteypu ofan á olíuleiðsluna á hafsbotni.

Olía tók að streyma út í hafið eftir að sprenging varð í olíuborpalli fyrir mánuði. Ellefu manns fórust.

Til þessa hefur að mestu tekist að koma í veg fyrir að olían berist á land, en nú í vikunni fannst nokkurt magn suðaustast í Louisiana. Bobby Jindal ríkisstjóri sagði að þetta væri aðeins útjaðar lekans, sem gæti valdið gríðarlegu tjóni í viðkvæmu lífríki votlendisins við ósa Mississippifljótsins. Þar eru fágætar dýra- og fuglategundir auk fjölskrúðugs sjávarlífs sem nú er stofnað í hættu.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×