Innlent

Stefnir í að fæðingum fækki aftur í ár

Fæðingum hefur fjölgað talsvert undanfarið, en ljósmóðir hjá Landspítalanum segir tölur benda til þess að fæðingum fækki aftur eftir metár í fyrra.Nordicphotos/AFP
Fæðingum hefur fjölgað talsvert undanfarið, en ljósmóðir hjá Landspítalanum segir tölur benda til þess að fæðingum fækki aftur eftir metár í fyrra.Nordicphotos/AFP
Aldrei hafa fæðst fleiri börn á einu ári hér á landi en á síðasta ári, þegar 5.027 börn komu í heiminn. Samkvæmt samantekt Hagstofunnar fæddust alls 2.466 stúlkur og 2.561 drengur árið 2009. Þetta er 111 börnum fleira en fyrra met frá árinu 1960, þegar 4.916 börn fæddust, og 192 fleiri en fæddust árið 2008.

Kristín Viktorsdóttir, aðstoðaryfirljósmóðir á Landspítalanum, segir að svo virðist sem dregið hafi aftur úr fæðingum eftir metárið í fyrra. Hún segir að þegar bornir séu saman fyrstu átta mánuðir ársins hjá Landspítalanum séu um sex færri fæðingar á mánuði nú en á sama tímabili í fyrra. Það gerist þrátt fyrir að fæðingar kvenna frá Selfossi og Reykjanesbæ hafi í auknum mæli færst til spítalans.

Kristín bendir þó á að ekki séu færri fæðingar skráðar alls staðar í ár, til dæmis sé fjöldi fæðinga á Akranesi það sem af er árinu þegar orðinn meiri en allt árið í fyrra.

Á vef Hagstofunnar kemur jafnframt fram að frjósemi íslenskra kvenna hafi aukist milli ára, sé horft til fjölda barna sem hver kona eignast á ævi sinni. Árið 2009 hafi hver kona að meðaltali átt 2,22 börn á ævinni, samanborið við 2,14 árið 2008. Það var þó í fyrsta sinn frá árinu 1996 sem frjósemi fór yfir markið 2,1, sem er almennt miðað við sem lágmarkstölu til að mannfjöldi viðhaldist til lengri tíma litið.

Þrátt fyrir þessa aukningu eru konur í dag ekki nema hálfdrættingar á við það sem viðgekkst á árunum í kringum 1960, þegar konur áttu rúmlega fjögur börn að meðaltali.- þj, bj


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×