Innlent

Einhugur um að bæta vinnubrögðin á Alþingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Einhugur var meðal þingmanna á Alþingi í dag að bæta þyrfti vinnubrögðin á þinginu og styrkja áhrif þess gagnvart framkvæmdavaldinu. Umræður um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum hefjast undir lok vikunnar.

Í dag hafa staðið yfir umræður á Alþingi um skýrslu Atlanefndarinnar til þingsins, en hún hafði það hlutverk að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og koma með tillögur til úrbóta.

Atli Gíslason formaður nefndarinnar mæltist til þess að umræður um mögulegar ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum biðu þar til ályktanir þar um koma til umræðu undir lok vikunnar.

Hann og aðrir þingmenn töldu að bæta þyrfti vinnubrögðin á Alþingi og auka áhrif þess gagnvart framkvæmdavaldinu.

En nefndin hafði líka það hlutverk að ákveða hvort ákærur verði lagðar fram og klofnaði í afstöðu sinni eins og fram hefur komið.

Þingmenn lýstu margir yfir vonbrigðum með að ekki tókst samstaða með fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nefndinni um að einkavæðing bankanna yrði rannsökuð, enda mætti rekja hrunið allt aftur til hennar.

Formaður Framsóknarflokksins segir fulltrúa flokksins í nefndinni hafa viljað ganga hvað lengst í þessum efnum. Allar upplýsingar lægju fyrir til að gagnrýna einkavæðinguna harðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×