Innlent

Getum dregið úr neyðinni á Haítí

Judeline, níu ára íbúi SOS barnaþorps á Haíti, sendi Lindu Laufeyju Bragadóttur, íslenskri stuðningsmóður sinni þessa mynd af sér. mynd/aðsend
Judeline, níu ára íbúi SOS barnaþorps á Haíti, sendi Lindu Laufeyju Bragadóttur, íslenskri stuðningsmóður sinni þessa mynd af sér. mynd/aðsend
Fjörutíu og sex börn í barnaþorpi SOS í Santo rétt utan við Port-au-Prince á Haíti eiga stuðningsforeldra á Íslandi. Þau sluppu öll heil á húfi frá jarðskjálftanum á þriðjudagskvöld, að sögn Ragnars Schram, hjá SOS á Íslandi.

Linda Laufey Bragadóttir og fjölskylda hennar hafa stutt eitt þessara barna, hina níu ára Judeline, í um tvö ár og fengu jólakort frá henni daginn eftir skjálftann.

Á kortið hafði Judeline teiknað peningapoka með dollaramerki og óskum um gleðileg jól. „Það er ótrúleg tilviljun að Judeline skyldi skreyta kortið á þennan hátt,“ segir Linda Laufey. „Í ljósi þessara hörmulegu atburða fær þessi litli peningapoki aukið vægi og minnir okkur öll á hversu gott við getum látið af okkur leiða með fjárframlögum og dregið úr neyð þessa fólks.“

Ragnar Schram segir að þótt SOS starfi ekki við neyðaraðstoð veiti samtökin nú nauðstöddum þá hjálp sem þau geta. Þegar frá líði bíði gríðarleg enduruppbygging. Munaðarlausum börnum í SOS-þorpunum muni áreiðanlega fjölga á næstunni. SOS eru alþjóðleg samtök sem starfa í 132 ríkjum og reka tvö barnaþorp á Haítí. Íslendingar hafa stutt börn í þorpinu í Santo.

- pg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×