Innlent

Stjórnarsamstarfið ekki í hættu - ósátt með afstöðu Ólafs

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Þingflokksfundi Samfylkingarinnar sem hófst klukkan þrjú er lokið. Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að staðfesta ekki Icesave lögin setur hagsmuni þjóðarinnar í hættu, að mati Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Hún fullyrðir að stjórnarsamstarfið sé ekki í hættu vegna ákvörðunar Ólafs.

Steinunn segir að þingflokksfundurinn hafi verið góður og þingmenn flokksins hafi rætt málið yfirvegað. „Við virðum þessa ákvörðun forsetans enda hefur hann þetta vald samkvæmt stjórnarskrá. Menn voru kannski ekki allir sáttir með ákvörðunina en þetta er hans niðurstaða og nú verður farið í það að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu. Persónulega er ég ósátt með afstöðu forsetans.“

Steinunn hefur þungar áhyggjur af því hvaða afleiðingar ákvörðun forsetans hefur erlendis. Þannig geti niðurstaða hans haft gríðarlega alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland.

„Forsætisráðherra gerði okkur grein fyrir því á þessum fundi að forsetanum var afhent samantekt sem var unninn af sérfræðingum í stjórnarráðinu um hvað myndi gerast ef hann myndi ekki skrifa undir. Forsetanum var því ljóst hvaða staða gæti komið upp gagnvart útlöndum og erlendum lánalínum,“ segir Steinunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×