Innlent

Segir Guðmund hafa vakið ótta og kvíða

Forstjóri Barnaverndarstofu segir forstöðumann Götusmiðjunnar hafa með framkomu sinni vakið ótta og kvíða meðal þeirra barna sem þar voru í vistun, en smiðjunni var lokað í gær. Forstöðumaðurinn hafnar því og segir forstjórann ganga of hart fram, eðlilegra hefði verið að veita sér áminningu.

Götusmiðjunni var lokað í gær og ungmenni sem þar voru í vistun voru fjarlægð. Bragi Guðbrandsson segir að málið eigi sér nokkurn aðdraganda. Ekki hafi náðst nægilega mikill árangur af starfinu á heimilinu. Bragi segir að innan við þriðjungur vistmenna hafi lokið við lágmarks tíma í sinni meðferð og segir hann að þau vandamál megi rekja til slakrar stjórnunar.

Ákveðinn vendipunktur hafi síðan orðið sem hafi réttlætt lokun heimilisins. Að sögn Braga upplýstust í viðtölum við börn og starfsfólk ákveðin mál sem litin hafi verið mjög alvarlegum augum. Bragi er þarna að vísa til atviks sem átti sér stað á fundi sem Guðmundur átti með börnum sem voru í vistun hjá Götusmiðjun, en Bragi segir að Guðmundir hafi sagt hluti við börnin sem hafi valdið hjá þeim kvíða og vanlíðan. Guðmundur þvertekur fyrir þetta og segist hafa sagt glaðhlakkanlega að fyrr á árum hafi menn verið hnébrotnir virtu þeir ekki trúnað.

Guðmundur segir að börnin tali götumál og það sem hann hafi sagt á fundinum hafi bara verið til þess að árétta trúnað. Í öllu falli segir Guðmundur að rétt viðbrögð Braga við þeim ummælum hefðu verið að áminna hann með einhverjum hætti en ekki að rjúka til og loka heimilinu.

Götusmiðjan fær á annað hundrað milljónir króna á ári frá Barnaverndarstofu. Aðspurður segist Guðmundur vera með sex hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun hjá Götusmiðjunni, en Bragi Guðbrandsson segir að Guðmundur hafi lengi ekki verið starfandi á heimilinu heldur aðeins komið þangað af og til og gefið starfsmönnum fyrirmæli.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×