Lífið

Stephen Fry hrósaði Einari fyrir lipur spor

Stephen Fry var hrifinn af fótafimi Einars Aðalsteinssonar sem steig „trylltan“ vals í Sherlock Holmes 2. Hins vegar gekk verr að ræða um daginn og veginn við Jude Law.
Stephen Fry var hrifinn af fótafimi Einars Aðalsteinssonar sem steig „trylltan“ vals í Sherlock Holmes 2. Hins vegar gekk verr að ræða um daginn og veginn við Jude Law.
„Þetta gekk alveg rosalega vel og var meiri háttar gaman," segir Einar Aðalsteinsson, ungur leikari á framabraut. Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skömmu fékk Einar statistahlutverk í stórmyndinni Sherlock Holmes 2 sem verið er að kvikmynda í Bretlandi þessa dagana.

Um var að ræða ógnarstórt dansatriði í nítjándu aldar-samkvæmi og fékk Einar hlutverkið í gegnum leiklistarkennara sinn í London. Honum var síðan úthlutaður dansfélagi og fékk að stíga „trylltan" vals fyrir framan tökuvélarnar, sem sjálfur Guy Ritchie, fyrrverandi eiginmaður Madonnu, stýrði.

Einar segist hafa fengið að hitta nokkrar af stórstjörnum myndarinnar, meðal annars hafi Stephen Fry, heimsfrægur fyrir smekkvísi, hrósað honum í hástert fyrir lipur dansspor. „Það gekk aðeins verra með Jude Law, ég reyndi að spjalla aðeins við hann en datt bara í hug veðurtengd umræðuefni eins og rokið fyrir utan," segir Einar og hlær og viðurkennir að það hefði kannski verið betra að brydda upp á samræðum um íslensku uppsetninguna á Faust í Young Vic-leikhúsinu en þar er Law innsti koppur í búri.

Einar er nú staddur fyrir norðan þar sem hann leikur stórt hlutverk í fjögurra þátta sjónvarpsseríu Friðriks Þór Friðrikssonar, Tíma nornarinnar, eftir samnefndri glæpasögu Árna Þórarinssonar. „Það gengur allt vel, reyndar er allt á kafi í snjó, en þetta hefst allt."- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.