Lífið

Aðstoða fræga ítalska stjörnu

Hrefna Hagalín og Kristín Bára Haraldsdóttir framleiða tónlistarmyndband fyrir eina stærstu poppstjörnu Ítala. 
fréttablaðið/stefán
Hrefna Hagalín og Kristín Bára Haraldsdóttir framleiða tónlistarmyndband fyrir eina stærstu poppstjörnu Ítala. fréttablaðið/stefán
Hrefna Hagalín og Kristín Bára Haraldsdóttir reka saman framleiðslufyrirtækið Krúnk og aðstoða ítalskt tökulið við tökur á tónlistarmyndbandi með einni stærstu poppstjörnu Ítala.

Tökuliðið kemur hingað til lands í vikunni og mun þá taka upp nýtt myndband með Luciano Ligabue, einni stærstu poppstjörnu Ítalíu. „Við eigum að redda öllu sem redda þarf fyrir verkefnið, finna leikara og tökulið, leigja græjur og finna tökustaði. Við vorum meðal annars beðnar um að finna hverfi í Reykjavík sem minnir á Los Feliz-íbúðarhverfið í Los Angeles, sem er svolítið flókið,“ segir Hrefna og bætir við að þær séu enn að leita að rétta hverfinu.

„Myndbandið á að fjalla um strák og stelpu sem búa í sömu götu og eru ástfangin. Við erum að leita að leikurum í hlutverkin núna og það er komið nokkuð langt á leið, leikstjórinn bað sérstaklega um leikara með hefðbundið íslenskt útlit.“

Hrefna og Kristín Bára hafa áður tekið að sér að framleiða auglýsingar og stuttmyndir auk þess sem þær unnu að gerð myndbandsins við Eurovisionlag Heru Bjarkar í fyrra.

Inntar eftir því hvort þær hafi kynnt sér tónlist Lucianos Ligabue svarar Hrefna því játandi. „Við erum búnar að hlusta aðeins á hann og ætli það megi ekki lýsa þessu sem týpísku ítölsku poppi.“ - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.