Enski boltinn

Daily Mail: Mark Hughes vill fá Eið Smára til Fulham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Vilhelm
Mark Hughes, stjóri Fulham, er að íhuga það að gera tilboð í Eið Smára Guðjohnsen, sem er til sölu hjá Stoke City. Daily Mail greinir frá þessu í morgun en Tony Pulis hefur ekkert notað Eið í tvo mánuði.

Fulham vantar tilfinnanlega framherja enda þurfti það tvö mörk frá bakverðinum Chris Baird til þess að tryggja liðinu sinn fyrsta deildarsigur síðan í október þegar liðið heimsótti Stoke í vikunni.

Fulham saknar enn stjörnuframherjans síns Bobby Zamora sem fótbrotnaði snemma á tímabilinu. Bandaríski miðjumaðurinn Clint Dempsey er markahæsti leikmaður liðsins í ensku deildinni með fimm mörk.

Það er samt ljóst að Stoke ætlar að fá sitt fyrir Eið Smára sem er með samning til vorsins. „Við erum tilbúnir að skoða samning sem er hentugur fyrir bæði okkar félag sem og leikmanninn. Ef hann býðst ekki þá verður ekkert af samningi," sagði Tony Pulis, stjóri Stoke.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×