Innlent

Borgarfulltrúi VG vill að skemmtistaðir loki klukkan þrjú

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, hefur sagt sig úr stýrihóp um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða vegna óánægju með hægagang og vinnubrögð hópsins. Hann vill fara að tillögum íbúa miðbæjarins og loka skemmtistöðum á ákveðnum svæðum klukkan þrjú.

Þorleifur sagði sig úr stýrihóp Reykjavíkurborgar um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða í gær. Þorleifur segist ósáttur við hægagang og aðgerðaleysi í starfi hópsins. Hann segist vona að nýr hópur verði skipaður að kosningum loknum. Auk þess gagnrýnir hann framkvæmd íbúafundar sem haldinn var um málið á fimmtudag og segir fundinn vera afskræmingu á lýðræðinu, en unnið var í hópum á fundinum.

Þorleifur segir að ef íbúafundurinn hefði átt að endurspegla viðhorf íbúa miðborgarinnar hefði þurft að bjóða þversniði þeirra á fundinn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu íhugar stýrihópurinn að leggja til styttingu rýmri opnunartíma skemmtistaða um alls klukkustund, úr hálfsex að morgni í hálffimm. Styttingin muni vera í áföngum um hálftíma í hvort skipti.

Þorleifur segist hins vegar hugnast hugmyndir íbúanna best og hyggst flytja tillögu í borgarráði þess efnis. Hann sér fyrir sér að skemmtistöðum á ákveðnum svæðum verði lokað klukkan þrjú að nóttu. Næturklúbbar og skemmtistaðir á öðrum svæðum geti hins vegar verið opnir lengur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×