Hamburger SV og Fulham gerðu markalaust jafntefli í Þýskalandi í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.
„Ég tel að við getum verið hæstánægðir með úrslitin því það var ansi erfitt að komast hingað," sagði Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Fulham, eftir leik. Liðið mætti í rútum til Þýskalands vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
„Það er ekki eðlilegt að ferðast stanslaust í tvo daga en við vorum ákveðnir í að nota það ekki sem afsökun. Ég tel okkur nú eiga hrós skilið. Það er erfitt að undirbúa lið þegar þú þarft að eyða tveimur dögum í rútu, en það sást ekki á leik okkar."
Hodgson telur Fulham í betri stöðu en Hamburger. „Þetta er frábær leikvangur með frábæru undirlagi. Það verður allt annað á Craven Cottage og verður erfitt fyrir þá að mæta á mun minni völl."