Innlent

Finnst staða kvenna hafa versnað

Þórhildur Þorleifsdóttir vinnur að nýju kvennaframboði. Mynd/ Stefán.
Þórhildur Þorleifsdóttir vinnur að nýju kvennaframboði. Mynd/ Stefán.
Staða kvenna á Íslandi hefur versnað undanfarin ár, segir Þórhildur Þorleifsdóttir, fyrrverandi þingmaður Kvennalistans. Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, tók Þórhildi tali í tilefni af kvennafrídeginum sem er á mánudag.

Þórhildur segir í viðtalinu að þó að staða kvenna hafi ekki versnað lagalega, hafi hún versnað ímyndarlega. „Bæði þá sjálfsmynd kvenna og hugmyndir samfélagsins um konur sem mér finnst hafa stórversnað. Ég er viss um að þessi klám- og kynlífsvæðing hefur haft geigvænlegar afleiðingar en það er búið að breiða einhverja frjálslyndisblæju yfir það þannig að það er erfitt að tala um þetta án þess að hægt sé að skella því fram að maður sé fordómafullur eða þori ekki að vera kynvera eða vilji hafa vit fyrir fólki. En við getum þvert á móti sagt að klám- og kynlífsvæðingin sé einmitt að hafa vit fyrir fólki. Sætta það við ofbeldi því klám er ofbeldisfullt. Það birtist fyrst og fremst í ofbeldi gegn konum og reynt er að láta líta út eins og konur vilji og njóti ofbeldis," segir Þórhildur. Það hafi verið látið að því liggja að konur vilji hreinlega láta pynta sig. Þær fái út úr því kynferðislega ánægju að lúta ofbeldi. „Þetta er rosalega alvarlegt," segir Þórhildur.

Þórhildur er einnig hugsi yfir þætti fjölmiðla. Þeir haldi útlitsdýrkun mjög á lofti og ýti undir staðalmyndir af konum. Hún nefnir í því samhengi myndir af fáklæddum konum, oft með afmynduð silíkonbrjóst, í blöðum og á netinu. Einnig segist hún undrandi á útlitsdýrkuninni í sjónvarpi. Allar konur þurfa að vera ungar og sætar sem þar vinna.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.