Innlent

Færri vilja verða leikskólakennarar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Aðsókn að leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands hefur minnkað upp á síðkastið þrátt fyrir að ekki takist að fullmanna stöður á leikskólum með fagmenntuðum leikskólakennurum.

Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarforseti kennaradeildar, segir að leikskólakennaranemum hafi fjölgað á árunum 2006 - 2008 en hafi tekið að fækka aftur eftir það. „Við höfum reynt að bregðast við því með því að fjölga leiðum inn í námið, þannig að fólk geti komið inn í leikskólakennaranám þó að það hafi hafið nám í einhverri annarri grein," segir Anna Kristín. Með þessu geti stúdentar komið inn í námið á miðri leið og nýtt sína fyrri menntun ef hún tengist starfi í leikskólum.

Vísir sagði frá því í síðustu viku að nánast hvergi á landinu tækist að manna leikskóla með lágmarks fjölda fagmenntaðra leikskólakennara. Samkvæmt tveggja ára gömlum lögum á hlutfall þeirra að vera 2/3 á hverjum leikskóla. Anna Kristín segir engar tölur vera til um hvort þetta sé vegna þess að nýútskrifaðir leikskólakennarar fari í önnur störf eða hvort það séu hreinlega ekki nógu margir kennarar sem útskrifist. Hins vegar sé ljóst að þeir sem hefji störf sem leikskólakennarar séu ólíklegir til að skipta um starfsvettvang. „Þannig að starfið er að mörgu leyti gott," segir Anna Kristín.

Anna Kristín segist ekki gera sér grein fyrir því hvað valdi því að leikskólakennaranámið er ekki vinsælla en raun ber vitni. „Lengi voru það nú launin en nú eru þau orðin algerlega sambærileg við laun grunnskólakennara. Það er nú kannski ekki hægt að segja að þetta séu beinlínis há laun en þau eru þó algerlega sambærileg," segir Anna Kristín.




Tengdar fréttir

Nánast allsstaðar vantar leikskólakennara til starfa

Erfiðlega gengur að ráða fagmenntaða leikskólakennara til starfa og nánast ekkert sveitarfélag á Íslandi getur uppfyllt lágmarksfjölda menntaðra leikskólakennara sem kveðið er á um í lögum frá árinu 2008. Ingunn Gísladóttir, starfsmannastjóri Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, segir að ástæðan sé fyrst og fremst sú að allt of fáir hafi farið í leikskólakennaranám undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×