Innlent

Árétting frá TR varðandi afkomu öryrkja

Vegna umræðu að undanförnu um afkomu almennings, þar á meðal öryrkja, hefur Tryggingastofnun birt til skýringar á aðstæðum öryrkja töflur sem sýna lágmarksgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Dæmin sem lögð eru fram til skýringar á heimasíðu Tryggingastofnunar miðast við þá sem hafa engar aðrar tekjur en þær sem koma frá stofnuninni. Allar skattskyldar tekjur, hvort sem um er að ræða atvinnutekjur, lífeyrisgreiðslur eða fjármagnstekjur hafa áhrif á upphæðir örorkulífeyris, aldurstengda örorkuuppbótar, tekjutryggingar og heimilisuppbótar.

Tafla 1. Dæmi um lágmarksfjárhæðir lífeyris og annarra réttinda öryrkja hjá Tryggingastofnun miðað við fulla aldurstengda örorkuuppbót. Hægt er að skoða töfluna með því að smella á myndina.
Tekið er fram að greiðslur eins og meðlag og umönnunargreiðslur, eru skattfrjálsar greiðslur, sem ekki eru bundnar við örorkulífeyrisþega. Tryggingastofnun annast milligöngu meðlagsgreiðslna með börnum undir 18 ára aldri, óski foreldrar eftir því.

Umönnunargreiðslur er fjárhagsleg aðstoð til foreldra sem eiga börn sem glíma við fötlun eða alvarleg veikindi. „Þetta er félagsleg aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður og tilfinnanlegur fyrir foreldra. Barnalífeyrir er skattfrjáls og ekki tekjutengdur. Upphæð barnalífeyris er sú sama og meðlags. Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað foreldri er látið eða er ell-, örorku eða endurhæfingarlífeyrisþegi."

Tafla 2. Dæmi um lágmarksfjárhæðir lífeyris og annarra réttinda öryrkja hjá Tryggingastofnun miðað við minnstu mögulega aldurstengda örorkuuppbót. Hægt er að skoða töfluna með því að smella á myndina.
Full aldurstengd örorkuuppbót, 29.294 krónur í töflu 1, miðast við að fyrsta örorkumat fari fram fyrir 25 ára aldur. Upphæð aldurstengdu örorkuuppbótarinnar lækkar með aldri við fyrsta örorkumat eftir það og verður lægst við 61 árs aldur, 732 krónur, samanber töflu 2. Eins og fram kemur í töflunum er endanleg upphæð ráðstöfunartekna óháð upphæð aldurstengdu örorkuuppbótarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×