Lífið

Sælir sigurvegarar í Seljaskóla

Krakkarnir í Seljaskóla unnu Skrekk í fyrsta skipti á mánudagskvöldið. Stemningin í skólanum að morgni þriðjudags var því ansi góð.
fréttablaðið/stefán
Krakkarnir í Seljaskóla unnu Skrekk í fyrsta skipti á mánudagskvöldið. Stemningin í skólanum að morgni þriðjudags var því ansi góð. fréttablaðið/stefán
„Það er búið að vera ótrúlega gaman og allir eru í skýjunum,“ segir Sigrún Dís Hauksdóttir, formaður nemendafélags Seljaskóla, en skólinn bar sigur úr býtum í Skrekk á mánudagskvöldið.

„Það voru allir svo ánægðir með sigurinn að það var gefið frí í fyrstu þremur tímunum í dag. Þegar við mættum svo í skólann, hlupum við sigurhring með styttuna og allir krakkarnir í yngri bekkjunum komu fram á gang að horfa,“ segir Sigrún, en Seljaskóli hefur aldrei unnið keppnina áður.

Atriði Seljaskóla var virkilega flott og því hlýtur undirbúningurinn að hafa verið gríðarlegur. „Við æfðum í fimm vikur en við reyndum að byrja eins snemma og við gátum,“ segir Sigrún. „Við vorum með leikaraprufur, fimleikaprufur og söngprufur og utanaðkomandi aðilar aðstoðuðu við valið á hópnum. Svo saumuðum við alla búningana líka sjálf,“ segir Sigrún, en alls tóku 33 nemendur þátt.

Sigrún fékk hugmyndina að atriði Seljaskóla en allir nemendurnir sem tóku þátt hjálpuðu til við að útfæra það. „Stephen Hawking sagði árið 2005 að við myndum útrýma heiminum með tækninni og í atriðinu erum við að sýna hvernig framtíðin gæti orðið með allri þessari tækni. En sama hvað gerist, að þá er alltaf von, og hún er okkar sterkasti eiginleiki,“ segir Sigrún. En var atriði Seljaskóla það flottasta á Skrekk í ár? „Alveg klárlega,“ segir Sigrún, glöð með sigurinn. - ka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.