Innlent

Lífsýnin skipta ekki sköpum í rannsókn lögreglu

Bráðabirgðaniðurstöður úr DNA rannsókn á morðinu á Hannesi Þór Helgasyni eru ekki taldar skipta sköpum í rannsókn málsins. Frekari niðurstöður eru væntanlegar, svo sem á blóði sem fannst á skóm mannsins sem grunaður er um ódæðið.



Fyrstu bráðabirgðaniðurstöður úr DNA rannsókn á morðinu í Háabergi komu til landsins frá Svíþjóð í gærkvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirlögregluþjóni hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er um að ræða rannsókn á lífssýnum sem tekin voru á vettvangi morðsins. Friðrik vildi engar upplýsingar gefa um það á þessari stundu hverjar niðurstöður rannsóknarinnar eru.



Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þessi lífssýni ekki talin skipta sköpum í rannsókn málsins. Enn er beðið eftir sýnum sem voru tekin síðar í rannsókn málsins svo sem á blóði sem fannst á skóm Gunnars Rúnars Sigþórssonar sem var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í síðustu viku. Blóðugt skófar á vettvangi morðsins passaði við skó hans og var það ein meginástæða þess að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Gunnar hefur neitað sök.



Samkvæmt heimildum eru vonir bundnar við að rannsókn á blóðinu sem fannst á skónum skili sér hingað til lands í næstu viku.



Skýrslutökur og yfirheyrslur fóru fram í dag en ekki náðist í lögmann Gunnars, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×