Lífið

Fékk rúma milljón í styrk

Baldvin við upptökur á útvarpsþættinum í Boston á dögunum. Hann hefur fengið rúma eina milljón króna í styrk frá From the Top.
Baldvin við upptökur á útvarpsþættinum í Boston á dögunum. Hann hefur fengið rúma eina milljón króna í styrk frá From the Top.
„Það er ekki hægt annað en vera ánægður með styrkinn. Þetta er svakalegur heiður. Núna get ég loksins keypt mér almennilegan trompet," segir trompetleikarinn efnilegi Baldvin Oddsson.

Forsvarsmenn bandaríska útvarpsþáttarins From the Top hafa veitt Baldvini styrk að upphæð tíu þúsund dollara, eða um 1,1 milljón króna. Styrkurinn kemur úr sjóði sem Jack Kent Cook, fyrrverandi eigandi körfuboltaliðsins Los Angeles Lakers, stofnaði. 25 ungir nemendur hljóta styrkinn sem skal nota til hljóðfærakaupa og/eða til að standa straum af kostnaði við sumarnámskeið.

Baldvin, sem er aðeins sextán ára, kemur fram í From the Top í dag. Þátturinn verður sendur út á um 250 útvarpsstöðvum og er talinn eiga sér um sjö hundruð þúsund dygga aðdáendur, eins og komið hefur fram í Fréttablaðinu. Einnig verður hægt að hlusta á þáttinn á síðunni Fromthetop.org. Upptökur fóru fram 24. október fyrir fullu húsi í tónlistarskólanum New England Conservatory of Music í Boston. „Að taka þátt í svona þætti er náttúrulega heiður og frábær lífsreynsla," segir Baldvin.

Yfir tvö þúsund ungir tónlistarmenn á aldrinum átta til átján ára hafa komið fram bæði í sjónvarps- og útvarpsútgáfu From the Top. Útsendarar þáttarins heyrðu Baldvin spila á tónlistarhátíðinni í Brevard í Norður-Karólínu í sumar og buðu honum að vera með. Baldvin stundar nám við Interlochen-listmenntaskólann í Michigan. Þar gengur honum vel og vann hann þar einleikarakeppni fyrir skömmu ásamt skólafélaga sínum. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.