„Ég var handtekinn og keyrður upp á stöð og settur út úr bílnum og mátti fara. Ég er bara á leiðinni upp í sendiráð aftur. Ég er hérna efst á Laugaveginum," segir Lárus Páll Birgisson sem var handtekinn fyrir stundu fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu er hann sat á stétt fyrir utan bandaríska sendiráðið. Hann ætlar að fara aftur upp í sendiráð nú þegar hann er laus.
„Ég var ekki að mótmæla neinu, ég varpaði fram þeirri fullyrðingu að stríð er glæpur. Ég er alveg sannfærður um að ég megi vera þarna, þetta er almenn gangstétt og ég er í siðferðislegum rétti með minn boðskap. Ef þeir vilja afmarka öryggissvæði eiga þeir að gera það og girða það af og loka því fyrir almenningi. Það getur hver sem er labbað þarna."
Aðspurður hvort hann eigi ekki von á því að vera handtekinn aftur þegar hann kemur upp í sendiráð segir Lárus Páll: „Jú, jú ef þeir eru samkvæmir sjálfum sér verð ég eflaust handtekinn aftur. En ég er alveg sannfærður um að ég megi vera þarna."
Lárus var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í þessum mánuði en hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu fyrir utan sendiráðið í október 2009.
